Menning

Hvernig hljómar guðseindin?

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Ragnheiður Harpa: „Ég rakst á umfjöllun um bylgjur guðseindarinnar í einhverju vísindatímariti og þá varð þessi mynd til í höfðinu á mér.“
Ragnheiður Harpa: „Ég rakst á umfjöllun um bylgjur guðseindarinnar í einhverju vísindatímariti og þá varð þessi mynd til í höfðinu á mér.“ Vísir/GVA
„Þetta er performans í hljóði og dansi. Dansi flugsins og hugmyndanna eða hugmyndaflugsins kannski,“ segir Ragnheiður Harpa Leifsdóttir um verk sitt Flugrákir, lokaverk Listahátíðar sem sýnt verður klukkan 17.45 á morgun. „Svo er þetta samtal milli flugvélanna, kórsins og áhorfenda.“

Verkið tekst á loft, í bókstaflegri merkingu, yfir Kollafirði. Tvær listflugvélar teikna form innblásið af bylgjum guðseindarinnar, sem er einnig þekkt sem Higgs-eindin. Samtímis mun Kvennakórinn Katla túlka ferðalag flugvélanna og verður þeim söng útvarpað beint á Rás 1. „Í rauninni er hugmyndin að baki verkinu sú að að kalla fram hvernig guðseindin hljómar,“ segir Ragnheiður. „Ég rakst á umfjöllun um bylgjur guðseindarinnar í einhverju vísindatímariti og þá varð þessi mynd til í höfðinu á mér. Þetta er flæðandi og femínískt form, engar beinar línur bara kúptar bylgjur.“

Flugvélunum tveimur er stýrt af þrautreyndum flugmönnum og það gleður Ragnheiði sérstaklega að annar þeirra er Björn Thors sem smíðaði vélina sem hann flýgur sjálfur. „Björn er sjálflærður flugvélasmiður sem er kominn á eftirlaun og það er einstakt að fá hann með okkur í þetta verkefni,“ segir hún. „Hinn flugmaðurinn er Kristján Þór Kristjánsson og þeir eru báðir algjörir fluglistamenn sem hefur verið ótrúlega gaman að vinna með.“

Flugkempa Björn Thors flýgur flugvél sem hann smíðaði sjálfur.
Söngurinn er mikilvægur þáttur í verkinu og um hann sér Kvennakórinn Katla sem stjórnað er af Hildigunni Einarsdóttur og Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Ragnheiður segir sönghluta verksins hafa sprottið upp úr hugmyndinni um að syngja heiminn til sín. „Ég var mikið að skoða hvernig fólk sér heiminn og túlkar hann og rakst þá á sögur um frumbyggja Ástralíu sem hafa kortlagt álfuna sína með sönglínum sem fólk gengur eftir og syngur heiminn til sín. Bak við þá hugmyndafræði liggur sú kenning að ekkert sé í rauninni til fyrr en það er sungið. Að það sem við skynjum sé ekki raunverulegt fyrr en við getum sett það í orð. Þannig að kórinn í rauninni syngur línurnar sem flugvélarnar teikna á himininn, túlkar ferðalag þeirra og syngur heiminn til sín.“

Sýningin hefst klukkan 17.45 á morgun og áhorfendum er bent á að safnast saman við Sólfarið á Sæbrautinni.

„Hægt verður að njóta verksins víða á höfuðborgarsvæðinu en við mælum með því að njóta þess við Sæbrautina og alls ekki gleyma að stilla vasadiskóin eða snjallsímana á RÁS 1,“ segir Ragnheiður. „Það er algjörlega nauðsynlegur þáttur í upplifuninni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×