Erlent

Hraktist á Kyrrahafinu í þrettán mánuði

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jose Salvador Alvarenga kominn á þurrt land.
Jose Salvador Alvarenga kominn á þurrt land. Nordicphotos/AFP
Maður, sem heitir Jose Salvador Alvarenga og er 37 ára gamall, segist hafa lagt af stað til fiskveiða á bátkænu frá Mexíkóströnd í desember árið 2012 ásamt fjórtán ára dreng, sem hét Ezekiel.

Hann skolaði á land á eyjunni Ebon á Marshall-eyjum í síðustu viku, 5.500 kílómetrum vestar og þrettán mánuðum síðar, þá kominn langleiðina yfir Kyrrahafið.

Hann segir að þeir hafi fljótlega lent í stórviðri og villst. Pilturinn hafi látist mánuði síðar en sjálfur hafi hann lifað á fiski, fuglum og skjaldbökum, auk þess sem hann hafi veitt litla hákarla með því að dýfa hendi sinni niður í sjóinn sem beitu, en svo gripið í sporðinn á hákörlunum þegar þeir nálguðust.

Fátt er enn vitað um hrakninga mannsins.Nordicphotos/AFP
Alvarenga segist vera frá El Salvador, en hafi búið í Mexíkó í fimmtán ár og stundað þar rækju- og hákarlaveiðar. Hann eigi tíu ára dóttur í Mexíkó og þrjá bræður í Bandaríkjunum, en vilji ólmur ná tali af vinnuveitanda sínum í Mexíkó, en sá heiti Willie. 

„Það er erfitt fyrir mig að trúa því að einhver hafi lifað af eftir þrettán mánuði á hafi úti,” segir Tom Ambruster, sendiherra Bandaríkjanna á Marshall-eyjum, í viðtali við AP-fréttastofuna. „En það er líka erfitt að trúa því einhver birtist skyndilega á Ebon. Þessi maður hefur greinilega lent í lífsraunum, og hann hefur verið á hafi úti í einhvern tíma.”

Stjórnvöld á Marshall-eyjum segjast eiga eftir að kanna trúverðugleika frásagnarinnar. Hann sé ekki jafn horaður og aðrir menn, sem hrakist hafa lengi á hafi úti. Hins vegar geti frásögnin staðist.

Nánar má lesa um hrakninga Alvarengas á vef The Daily Telegraph.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×