Menning

Bara eins og lífið er

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Öll verkin eru merkt 2014 og túlka sitthvað sem listamanninum hefur legið á hjarta á þessu ári.
Öll verkin eru merkt 2014 og túlka sitthvað sem listamanninum hefur legið á hjarta á þessu ári. Fréttablaðið/Ernir
Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður er úti á stétt þegar Fréttablaðsbíllinn rennur upp að götukanti við Freyjugötu 1, tilbúinn að leiða fávísan fréttamann um sýninguna Frábært Tilboð í Harbinger galleríi.

Þar eru öll verkin merkt ártalinu 2014 og túlka sitthvað sem listamanninum hefur legið á hjarta á þessu ári. Allt meira og minna djúpt en þó stutt í húmorinn.

Hann byrjar á að útskýra eitt, það er með þéttum svörtum og rauðum texta. Svarti textinn er eftir Christinu Lagarde, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Þetta er ræða sem Lagarde hélt um töluna sjö, ég var að skoða hana á netinu og sá að hún var túlkuð sem skilaboð til elítunnar í heiminum. Þá fannst mér textinn Krossgötur, um mann sem selur sál sína, renna inn í ræðuna og úr varð þetta verk.“



Önnur mynd heitir Trommuþrællinn og vísar í texta um trommarann sem fær ekkert að borða – en hjúkk – á myndinni fær hann að borða.

„Myndin gæti táknað hvern sem er. Launaþrælinn til dæmis, hvenær fær hann að borða?“ spyr Steingrímur.

Ekki er honum lagið að skyggnast inn í framtíðina ef marka má eitt verkanna, lista yfir það sem hann hélt að mundi gerast þann og þann daginn. Ekkert rættist nema það að Snorri Ásmundsson sendi Framsóknarflokknum bréf. Hitt virkaði ekki. Steingrímur hitti ekki Spessa, fékk ekkert svar, ekkert dularfullt símtal. „Þetta er bara eins og lífið er,“ segir hann æðrulaus.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×