Menning

Ræflavík sýnd í Tjarnarbíói

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Við erum öll að bruna í bæinn, nánar tiltekið í Tjarnarbíó þar sem Ræflavíkin verður sýnd á fimmtudags- og föstudagskvöld,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, leikstjóri sýningarinnar Ræflavík, sem er byggð á breska verðlaunaleikritinu Punk Rock eftir Simon Stephens og er hér sett upp í staðfærslu og leikgerð Jóns Gunnars og Norðurbandalagsins.



„Í staðfæringunni kjósum við að kalla þetta Ræflavík, en við eigum nóg af slíkum Víkum á Íslandi með þeim kostum og göllum sem því fylgja að búa þar. Stærsti kosturinn er samheldnin í slíkum bæjum en stærsti gallinn er líka samheldnin gegn þeim sem falla ekki inn í og verða fyrir einelti, til dæmis.“



Þetta er þriðja uppfærsla leikfélagsins Norðurbandalagsins á Akureyri. „Norðurbandalagið var stofnað fyrir þremur árum og er starfrækt á sumrin,“ útskýrir Jón Gunnar. „Allir leikararnir eru annaðhvort útskrifaðir leikarar, í leiklistarnámi eða á leið í slíkt nám og Akureyrarbær hefur borgað þeim laun á sumrin fyrir að taka þátt í leiksýningum. Það er stuðningur bæjarins við leiklistarfólk framtíðarinnar.“



Sýningarnar í Tjarnarbíói verða aðeins tvær og hefjast klukkan 20 bæði kvöldin. Jón Gunnar varar væntanlega áhorfendur við því að sýningin sé hvorki fyrir viðkvæma né hjartveika og bönnuð innan 16 ára. „Ástæðan fyrir því er grófur orðaforði og að við erum ekkert að skafa utan af hlutunum.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×