Erlent

Skólabörn meðal látinna

Birta Björnsdóttir skrifar
Að minnsta kosti fjórtán manns létust þegar eldgos hófst í fjallinu Sinabung á eynni Súmötru í Indónesíu fyrr í dag.

Fréttavefur BBC hefur eftir yfirvöldum á svæðinu að meðal látinna voru börn á skólaferðalagi.

Yfirvöld óttast að fleiri gætu verið látnir, en leitarskilyrði á svæðinu eru slæm vegna mikillar ösku.

Umtalsvert öskufall hefur verið úr fjallinu undanfarna mánuði. Umrótið hófst í september og höfðu tugir þúsunda þurft að flýja heimili sín vegna öskufallsins og yfirvofandi hættu.

Í gær leyfðu þó yfirvöld íbúum sem búsettir eru í meira en fimm kílómetra fjarlægð frá fjallinu að snúa til síns heima. Sólarhring síðar hófst eldgosið en sjónarvottar segja glóandi grjót og ösku þeytast upp úr fjallinu í allt að tvo kílómetra upp í loftið.

Þrjú ár eru síðan síðast gaus úr Sinabung fjallinu, þá létust tveir og rúmlega 30 þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín. Þar áður hafði fjallið legið í láginni í um 400 ár.

Sinabung er eitt af 130 virkum eldfjöllum á eynni Súmötru í Indónesíu. Eyjan er sú sjötta stærsta í heiminum að flatarmáli og þar búa um 50 milljónir manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×