Erlent

Taílandsstjórn hvikar ekki frá að efna til kosninga

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Stjórnarandstæðingar í Taílandi vilja ekki kosningar.
Stjórnarandstæðingar í Taílandi vilja ekki kosningar. Nordicphotos/AFP
Yingluck Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, lætur engan bilbug á sér finna og efnir til þingkosninga á morgun, þrátt fyrir að úrslit þeirra séu ólíkleg til að breyta nokkru.

Yingluck er talin eiga sigur nokkuð vísan og getur því eftir sem áður stuðst við meirihluta á þingi, en andstæðingar hennar munu áfram krefjast þess að hún segi af sér.

Stjórnarandstaðan telur kosningarnar tilgangslausar, hyggst ekki mæta á kjörstað og ætlar að trufla framkvæmd þeirra eftir megni.

Krafa mótmælenda er sú að Yingluck segi af sér ásamt ríkisstjórn sinni, en í stað kosninga verði mynduð bráðabirgðastjórn sem fái það hlutverk að breyta stjórnskipan landsins áður en kosið verði að nýju. Breytingarnar eigi að tryggja að Yingluck og fjölskylda hennar geti ekki lengur haft áhrif í stjórnmálum landsins. Mótmælendur munu því áfram fjölmenna á götum Bangkok og loka aðgangi að ýmsum stjórnarbyggingum. Búast má við hörðum átökum áfram og pattstöðu, sem lamar þjóðlífið.

Stuðningurinn við stjórnina kemur frá landsbyggðinni, einkum í norðanverðu landinu þar sem fátækt er víða meiri en í höfuðborginni Bangkok.

Andstæðingar stjórnarinnar eru hins vegar betur stæðir höfuðborgarbúar, sem höfðu verið vanir því að fara með stjórn landsins allar götur þangað til auðkýfingurinn Thaksin Shinawatra, bróðir núverandi forsætisráðherra, vann sigur í þingkosningum árið 2001.

Thaksin höfðaði meira til alþýðunnar í sveitunum, en var sakaður um lýðskrum og spillingu. Hann hrökklaðist frá völdum árið 2006 og var á endanum dæmdur í fangelsi fyrir spillingu, og býr nú í útlegð utan landsteinanna.

Yingluck er á hinn bóginn sökuð um að vera strengjabrúða í höndum bróður síns.

Óvissan um kosningarnar snýst meðal annars um það, hvort stjórnarandstæðingum tekst að trufla framkvæmd þeirra nægilega mikið til þess að úrslitin verði ekki afgerandi.

Nýtt þing getur til dæmis ekki komið saman nema tekist hafi að kjósa í að minnsta kosti 95 prósent af þeim 500 þingsætum, sem kosið er um. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×