Erlent

Tæplega 6000 í einangrun í Suður-Kóreu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður hefur verið vegna veirunnar.
Mikill viðbúnaður hefur verið vegna veirunnar. Vísir/EPA
Þrír til viðbótar hafa látist úr MERS-veirunni í Suður-Kóreu sem þýðir að nítján hafa látist vegna veirunnar í heildina í landinu. Jafnframt var tilkynnt í dag að fjórir til viðbótar hefðu greinst með veiruna en samtals 154 hafa smitast nú þegar.

Heilbrigðisstofnun Suður-Kóreu hefur gripið til þess ráðs að setja fleiri og fleiri í einangrun, bæði á heimilum sínum og á stofnunum, en nú eru 5,586 manns í einangrun. Talan hækkaði um 370 á einum degi.

Minna um smit en áður

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sagði þó að fjölgun nýrra veirusmita væri ekki jafnhröð og áður sem þau telja benda til þess að útbreiðsla veirunnar sé á undanhaldi. Þó vöruðu talsmenn stofnunarinnar við því að veiran væri óútreiknanleg.

MERS eða Middle east respiratory syndrome getur valdið bráðri lungnabólgu með hita, öndunarerfiðleikum og jafnvel nýrnabilun. Læknar segja hana ekki bráðsmitandi.

Skólar hafa verið opnaðir að nýju.Vísir/EPA
Skólar opnaðir að nýju

Þúsundum skóla í Suður-Kóreu var lokað vegna útbreiðslu veirunnar en þeir hafa nú margir hverjir verið opnaðir aftur. Fylgst er náið með ástandi barnanna, fylgst er með líkamshita þeirra og þeim er gert að þvo á sér hendurnar reglulega. 440 skólar eru enn lokaðir. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælti með því að skólar yrðu opnaðir á nýjan leik þar sem í ljós kom að smit bárust ekki þaðan. Smithættan virðist að mestu bundin við heilbrigðisstofnanir.

Slæm áhrif á iðnað í Suður-Kóreu

Veikindin í Suður-Kóreu hafa ollið því að yfir hundrað þúsund ferðamenn hættu við að koma til landsins. Sala á fötum hefur minnkað töluvert og landið hefur verið gagnrýnt fyrir að kunna ekki að bregðast við útbreiðslu smitsjúkdóma. Í frétt CNN kemur jafnframt fram að vinsældir Park Geun-hye, forseta landsins, hafi minnkað að undanförnu.

Heilbrigðisstofnun Suður-Kóreu mun funda með Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×