Menning

Skoðaðu samhengið

Magnús Guðmundsson skrifar
 Á sýningunni gefur víða að líta muni frá ólíkum tíma sem tengjast þó jafnvel með óvæntum hætti.
Á sýningunni gefur víða að líta muni frá ólíkum tíma sem tengjast þó jafnvel með óvæntum hætti. Visir/Ernir
Í dag verður Safnahúsið opnað að nýju með sýningu á sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Að sýningunni standa höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn, Listasafn og Náttúruminjasafn, auk Þjóðskjalasafns, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Samstarf þessara sex stofnana býður upp á einstakt tækifæri til að skoða arfleifðina í nýju samhengi og varpa ljósi á ósagða sögu með nýstárlegum hætti.

Sjónrænn menningararfur snýr langt því frá einvörðungu að því sem almennt er litið á sem myndlist. Þarna er að finna muni á borð við íslensku handritin, hönnun og myndlist samtímans, handverk liðinna alda og svo mætti lengi telja. Mikil áhersla er lögð á fræðsluþáttinn fyrir fjölskyldur sem skóla og hefur Hlín Gylfadóttir, safnfræðslufulltrúi Þjóðminjasafnsins, unnið að fræðsluefni ásamt fleirum í aðdraganda opnunarinnar.

Hlín Gylfadóttir er á meðal þeirra sem hafa unnið að fræðsluþætti sýningarinnar.Visir/Ernir
„Þetta er búið að vera langt og mikið ferli sem hefur verið ákaflega gaman að taka taka þátt í. Sýningin verður tækifæri til samverustunda fyrir börn og fullorðna og þannig hugsuð að fólk geti komið saman og notið hennar á sínum forsendum.

Við erum búin að útbúa fræðsluefni sem virkar eins og hjálpartæki þegar sýningin er skoðuð. Það eru t.d. spil, leikir og þrautir sem leiða fólk áfram í gegnum sýninguna og hvetja það um leið til þess að nota hugmyndaflugið. Þannig verður það sem skoðað er að lifandi munum sem tala með sínum hætti til þeirra sem skoða og njóta.

Heimsókn í Safnahúsið er þannig tilvalið tækifæri til samverustundar ólíkra kynslóða. Að auki verður hægt að nálgast sérsniðið efni á vefnum okkar fyrir kennara fyrir skólaheimsóknir.“

Safnahúsið mun einnig bjóða upp á leiðsöguforrit í gegnum síma og leigu á símum. Með því er hægt að þræða sig eftir sýningunni með hvort sem er heldur hljóðleiðsögn eða skjátexta og því er mikið gert til þess að fólk geti notið sýningarinnar til fulls og fengið skemmtilega fræðslu í senn.

Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson og er rétt að minna á að í næstu viku verður enginn aðgangseyrir að safninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.