Erlent

Ráðleggur börnum yngri en sex ára að borða ekki hrískökur

Atli Ísleifsson skrifar
Fullorðnir sem borða hrísgrjón sjö sinnum í viku eða oftar, ættu að draga úr neyslunni, samkvæmt nýjum ráðleggingum sænsku matvælastofnunarinnar.
Fullorðnir sem borða hrísgrjón sjö sinnum í viku eða oftar, ættu að draga úr neyslunni, samkvæmt nýjum ráðleggingum sænsku matvælastofnunarinnar. Vísir/Getty
Matvælastofnun Svíþjóðar, Livsmedelsverket, hefur breytt ráðleggingum sínum og mælir nú gegn því að börn neyti hrískaka. Þá hvetur stofnunin til þess að börn borði ekki hrísgrjón eða hrísgrjónsafurðir oftar en fjórum sinnum í viku.

Ástæða nýrra ráðlegginga stofnunarinnar er að hrísgrjón innihalda talsvert magn hins krabbameinsvaldandi efnis, arseniks.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins kemur fram að Livsmedelsverket hafi nú rannsakað 102 mismunandi hrísgrjónsafurðir eftir að greint var frá því í vor að hrísgrjón innihéldu arsenik. Niðurstaða rannsóknar stofnunarinnar er að arsenikmagn í sumum afurðum mælist of hátt.

„Við vissum nú þegar að það væri arsenik í hrísgrjónum. Við höfum nú komist að því að sumar afurðir á markaðnum innihalda ansi mikið magn. Við ráðleggjum nú að börn yngri en sex ára borði ekki hrískökur. Við hin getum borðað hrískökur stundum, eftir því hvað við borðum mikið af öðrum hrísgrjónaafurðum,“ segir Emma Halldin Ankarberg, sérfræðingur hjá Livsmedelsverket.

Í frétt SVT segir að fullorðnir geti borðað meira af hrísgrjónaafurðum en börn. Þeir sem borði hrísgrjón sjö sinnum í viku eða oftar, ættu hins vegar að draga úr neyslunni.

Arsenik er eitt af mest krabbameinsvaldandi efnum sem til er. Efnið er að finna víðsvegar í jörðinni og grunnvatni í heiminum, og geta hrísgrjón dregið í sig efnið á meðan það vex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×