Erlent

Skattar hækka og bankar opnaðir á ný

Þórgnýr Albert Einarsson skrifar
Grikkir streymdu í banka landsins í gær þegar dyr þeirra opnuðust að nýju. Bankarnir höfðu verið lokaðir í þrjár
Grikkir streymdu í banka landsins í gær þegar dyr þeirra opnuðust að nýju. Bankarnir höfðu verið lokaðir í þrjár vikur.nordicphotos/afp
Víða í Grikklandi mátti sjá fólk skipa sér í röð fyrir utan banka áður en þeir voru opnaðir í gærmorgun. Bankarnir höfðu verið lokaðir í þrjár vikur en voru opnaðir á ný í kjölfar samþykktar um nýja neyðaraðstoð fyrir Grikki.

Gríska ríkisstjórnin tók á sínum tíma þá ákvörðun að loka bönkum eftir ákvörðun Seðlabanka Evrópu um að skera á lausafjáraðstoð til grískra banka. Í þær þrjár vikur sem bankastarfsemi lá niðri máttu Grikkir einungis taka andvirði tæpra 9.000 króna út úr hraðbanka á dag.

Talsverð höft eru þó enn um sinn á bankastarfsemi. Grikkir mega nú taka út andvirði um 63.000 króna í einni færslu vikulega í stað þess að þurfa að taka út daglega. Heildarupphæð sem hægt er að taka út á viku helst sú sama. Auk þess eru gjaldeyrishöft enn til staðar. Grikkir mega hvorki skipta við erlenda banka né leysa út ávísanir.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði í gær að gjaldeyrishöft bæru ekki vott um eðlilegt ástand og að þau sýndu þörfina á því að klára neyðaraðstoðarsamning fyrir Grikki sem fyrst.

Grikkir fengu þó aukalán sem nemur 1.050 milljörðum króna til að borga af lánum á meðan unnið er að því að fullklára samninginn við lánardrottna Grikkja, Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Aukalánið varð til þess að Grikkir stóðu við afborgun á láni til Seðlabanka Evrópu í gær auk tveggja afborgana til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem Grikkir stóðu ekki við á síðustu vikum. Afborganirnar nema samtals um 1.000 milljörðum króna. Grikkir eru því langt komnir með lánið.

„Þegar hefur verið létt á skuldabyrði Grikkja með aðkomu allra aðila. Við getum nú talað um möguleikann á slíkum aðgerðum aftur,“ sagði Merkel enn fremur. Hún útilokaði þó að fella niður hluta skulda Grikkja.

Virðisaukaskattur á matvæli, meðal annars, hækkaði úr þrettán prósentum í 23 prósent í gær. Markar það fjórðu hækkun þess virðisaukaskattþreps á síðustu tíu árum. Árið 2005 var skatturinn átta prósent en hækkaði um eitt prósentustig ári seinna. Árið 2010 varð hann ellefu prósent, árið 2011 þrettán prósent og loks 23 prósent í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×