Erlent

"Skotárásin“ í Ósló: Vörðurinn skaut sjálfur og kom "sprengjunni“ fyrir

Atli Ísleifsson skrifar
Grete Lien Metlid, talsmaður lögreglunnar, ræddi við fjölmiðla í morgun.
Grete Lien Metlid, talsmaður lögreglunnar, ræddi við fjölmiðla í morgun.
Talsmaður norsku lögreglunnar segir að öryggisvörðurinn sem „skotinn“ var á háskólasvæðinu í Ósló í fyrrinótt hafi verið ákærður fyrir að hafa gefið lögreglu falskar upplýsingar.

Vörðurinn breytti í gærkvöldi útskýringum sínum á því hvað hafi átt sér stað og viðurkenndi að hafa sjálfur skotið úr byssu og komið hlut sem líktist sprengju fyrir á svæðinu.

Mikill viðbúnaður var á háskólasvæðinu í gærmorgun og voru sprengjusérfræðingar kallaðir á vettvang.

„Þetta þýðir að það var hann sem skaut,“ segir Grete Lien Metlid, talsmaður lögreglunnar, í samtali við norska fjölmiðla í morgun og bætir við að vopnið sé fundið og lögregla hafi lagt hald á það.

Lögregla hefur óskað þess að ræða við alla þá sem voru á háskólasvæðinu Blindern aðfaranótt gærdagsins.

Mikil leit stóð yfir að tveimur mönnum sem öryggisvörðurinn sagðist hafa elt og að annar þeirra hafi skotið vörðinn í bringuna. Bárust í gær fréttir af því að vörðurinn hafi sloppið með minniháttar sár þar sem hann hafi verið í skotheldu vesti.

Lögregla gefur ekki upp skýringar á því hvers vegna vörðurinn hafi logið til um málið, en segir málið mjög alvarlegt þar sem það hafi vakið ótta meðal fólks.


Tengdar fréttir

Skotárás á háskólasvæði í Osló

Lögreglan í Osló er með mikinn viðbúnað umhverfis Oslóarháskólann í Noregi eftir að hlutur, sem talinn er svipa til sprengju, fannst á svæðinu í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×