"Ég veit ekki hver byrjaði á þessari dramatík. Fjölmiðlarnir fóru af stað í einhverja ævintýramennsku. Þetta er bara kjaftæði," segir landsliðsmaðurinn Pavel Ermolinskij um frétt þess efnis að hann færi ekki með landsliðinu til Póllands í morgun.
"Ég vil biðja fjölmiðlamenn að slaka aðeins á dramatíkinni. EM er ekki í neinni hættu hjá mér."
Ísland var að spila á fjögurra þjóða móti í Eistlandi um nýliðna helgi. Pavel meiddist í nára í lokaleik mótsins og þarf að taka því rólega næstu daga.
"Þetta er bara smávægileg tognun hjá mér en á leiðinlegum stað. Þetta er ekkert hræðilegt. Það kemur í ljós er nær dregur helgi hvað ég get gert," segir leikstjórnandinn fjölhæfi og bætti við að það væri miður að hann fengi ekki æfingar um næstu helgi.
"Ef ég þarf að láta reyna á meiðslin þá þarf ég að gera það í leik sem er kannski ekki alveg það besta."
Eins og áður segir eru strákarnir á leið til Póllands og þar bíður liðsins annað fjögurra þjóða mót. Strákarnir spila á föstudag, laugardag og sunnudag.
Eftir það heldur liðið til Berlín þar sem EM bíður handan við hornið. Fyrsti leikur strákanna er gegn heimamönnum í Þýskalandi þann 5. september.
Körfubolti