Menning

Á mörkum hins óbærilega

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Jón Páll Eyjólfsson hefur alltaf verið róttækur í pólitískum skoðunum og segir leikhúsið vera í hlutverki stjórnarandstöðu.
Jón Páll Eyjólfsson hefur alltaf verið róttækur í pólitískum skoðunum og segir leikhúsið vera í hlutverki stjórnarandstöðu. Vísir/Ernir
Jón Páll Eyjólfsson er önnum kafinn dagana milli jóla og nýárs, enda að flytja til Akureyrar í byrjun janúar, en gefur sér þó tíma til að hitta mig á Gráa kettinum í morgunsárið og spjalla um framtíðina. Mætir reyndar sjö mínútum of seint og biðst afsökunar í bak og fyrir eins og slíkt sé ófyrirgefanleg synd. Eftir að hann hefur orðið sér úti um kaffibolla og vatnsglas spyr ég hann hvað hafi komið til að hann ákvað að sækja um stöðu leikhússtjóra fyrir norðan.

„Það var bara kominn tími á breytingar. Það var orðið ljóst að ég var ekki innanborðs í Borgarleikhúsinu lengur og ég var búinn að vera í limbói töluvert lengi í fyrsta sinn síðan ég kom heim frá námi fyrir fjórtán árum. Ég veit hvernig Leikfélagið virkar á Akureyri og ég veit að sú eining er öðruvísi í laginu en Borgar- og Þjóðleikhúsið. Þau eru dálítil olíuskip meðan L.A. gefur meiri möguleika, til dæmis á því að vera dramatúrg sem leikhússtjóri sem er eitt af því sem ég geri mjög vel. Það höfðar til mín að vera innviklaður í listræna stjórnun hússins, ekki bara marka stefnuna og sitja síðan og horfa á mælana. Þarna get ég farið niður í vélarrúm og aðstoðað við að laga kúrsinn ef áttavitinn fer að sýna vitlausa stefnu. Það er allavega mín reynsla eftir að hafa leikstýrt tveimur sýningum fyrir norðan og leikið þar líka og það var ástæðan fyrir því að ég sótti um leikhússtjórastöðu þar en hvorki í Borgarleikhúsinu né Þjóðleikhúsinu, þau störf höfðuðu ekki til mín, allavega ekki núna. Fyrir norðan bíður líka ærið verkefni þar sem verið er að setja undir einn hatt leikfélagið, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og menningarhúsið Hof. Mér finnst sú tilraun merkileg því það er ekki bara verið að einblína á rekstrarlegu kostina, þótt þeir séu augljósir, heldur opnast þarna möguleiki á samstarfi og samtali sem ekki hefur átt sér stað áður. Það þýðir að það ætti að vera hægt að prógrammera mjög þétta og flotta dagskrá, engin samkeppni um tíma eða áhorfendur og samnýting á mannskap og reynslu. Sá andi hefur alltaf verið ríkjandi hjá Leikfélagi Akureyrar að gera alþýðlegt og aðgengilegt leikhús og þá leið höldum við áfram að fara.“

Pólitík í öllu verkefnavali

Hvað áttu við með því?

„Það eru ýmsar leiðir til þess. Þú getur gert það með því að verkefnið eða frásögnin á sviðinu sé það tengd svæðinu eða það mikilvæg spurning að fólk finni sig knúið til að koma og verða vitni að því. Það er nefnilega stór munur á vitni og áhorfanda. Þegar þú verður vitni að einhverju situr eftir vitneskja og hugsanlega líka löngun til að endurtaka frásögnina eða reyna að svara spurningunum sem varpað er fram. Svo hef ég rætt möguleika á svokallaðri borgarasenu þannig að skalinn gæti verið allt frá stórri sýningu í Hamraborginni í Hofi með sinfóníunni yfir í smærri sýningar með styttri aðdraganda og öðruvísi vinnuaðferð, aðferð borgarsenunnar, þar sem raunverulegt fólk stígur á svið og segir sögu einhvers afmarkaðs efnis; upplifun innflytjenda af Akureyri, veðurfar í Eyjafirði og áhrif þess, leigubílaakstur í bænum og tengsl hans við næturlífið, til dæmis, í stað þess að leikarar þykist vera innflytjendur, veðurfræðingar eða leigubílstjórar á sviðinu. Þetta er ekki spurning um að fá lánaða sögu og laga hana að þörfum leikhússins heldur að leikhúsið komi á móti fólkinu og komi þessum frásögnum í þann búning að þær hafi sem sterkust áhrif. Þannig verður leikhúsið í miklu samtali við samfélagið sjálft.“

Þú hefur mjög ákveðnar skoðanir á því hvað leikhús á að segja og hvaða erindi það á að eiga, ekki satt?

„Það er stundum talað um að það vanti pólitískt leikhús en svo sest maður niður og uppgötvar að pólitíkin er alls staðar. Það er pólitík í öllu verkefnavali leikhúsanna, það þarf að skoða allar frásagnir sem valdar eru út frá því hvaða hugmyndafræði þær boða og síðan er pólitík í því hvernig þú kýst að koma þeirri hugmyndafræði til skila. Ég hef þá einföldu skoðun að ef þú ert að gera leikhús fyrir opinbert fjármagn þá hefurðu þá skyldu að þær frásagnir sem veljast á svið, sú starfsemi sem er í húsinu og dramatúrgían séu þannig að þær séu í samtali við samfélagið.“

Leikhúsfólki verður mjög tíðrætt um þetta samtal við áhorfendur en er það ekki alltaf frekar eintal? Áhorfandinn hefur enga rödd.

„Það er spurning sem alltaf þarf að spyrja: hvaða hlutverk ætlarðu áhorfandanum? Á hann að koma bara til að klappa, eða hlæja, eða finna til, eða jafnvel að ganga út með verkefni eða spurningu? Það er þessi munur sem ég var að tala um áðan á því að vera áhorfandi eða vitni með ábyrgð. Borgarasenan er ein leið til að virkja áhorfandann og útbúa rými þar sem hægt er að setja sig í spor þeirra sem segja söguna á sviðinu. Það er ekki hlutverk listamanna að skenkja áhorfendum „réttu svörin“, heldur vekja spurningar og leyfa ágreiningi að koma upp á yfirborðið. Stundum er það það eina sem við getum gert.“

Ætlaði að hætta í leiklist

Þú hefur samt það orð á þér að hafa komið inn í íslenskt leikhús sem einhvers konar róttæklingur. „Ég hef alltaf haft róttækar pólitískar skoðanir, hef alltaf trúað á grundvallargildi og trúi því að listamenn séu hluti af fjórða valdinu með fjölmiðlum. Er sammála því að leikhúsið eigi alltaf að vera í stjórnarandstöðu, vera vígvöllur hugmynda en samt þannig að menn geti gengið heilir til Valhallar. Ég kom hins vegar bara sem leikari inn í íslenskt leikhús, engin læti sem fylgdu því, eftir að hafa verið í þrjú ár í Bretlandi í námi og stíga mín fyrstu spor í atvinnuleikhúsi í Young Vic í London. Þetta var árið 2001 og 2004 verður eiginlega ófært fyrir mig að starfa í leikhúsi. Þá var verið að gera svo miklar breytingar hér á öllu samfélaginu, Eimreiðarhópurinn nærri búinn að klára sitt verkefni, og leikhúsið hafði ekkert að segja um málið, ekki púst. Þannig að ég ákvað að ég myndi líklega bara ekki tóra í þessu starfi og ætlaði að hætta. Þá hitti ég tvo fulltrúa úr Stúdentaleikhúsinu og það varð úr að við myndum setjast niður og gera leiksýningu þar sem sagt væri upphátt það sem okkur fannst þurfa að segja og úr verður sýningin Þú veist hvernig þetta er, sem var samyrkjusýning. Fólk varð fyrir sterkum áhrifum af þeirri sýningu og þá hugsaði maður: já, kannski getur leikhúsið verið eitthvert hreyfiafl og birt aðra hlið á raunveruleikanum. Það varð síðan til þess að ég fór að taka að mér verkefni sem leikstjóri. Síðan hef ég alltaf haft grundvallarlínu í því sem ég geri, það er að svara þeirri spurningu af hverju eigi að sýna þetta verk núna. Ef maður getur ekki svarað þeirri spurningu þá verður maður bara að rétta einhverjum öðrum boltann. Ég hef verið mjög hreinskilinn með það ef verk henta mér ekki, en það hefur auðvitað kostað það að oft hefur verið hrísgrjónagrautur í matinn dálítið lengi.“

Áður en þú fórst í leiklistina reyndirðu að hafa áhrif í gegnum pólitískt starf, ekki satt? 

„Jú, ég var í Fylkingunni í gamla daga, Alþýðubandalaginu, þar sem ég var í framboði til bæjarstjórnar í Keflavík og komst svo langt að verða varabæjarfulltrúi, og loks Samfylkingunni. Það er auðvitað löng saga og hefð fyrir pólitískri þátttöku í minni ætt, afi var Eysteinn Jónsson ráðherra og pabbi, Eyjólfur Eysteinsson, var einn af Möðruvellingunum, þannig að það hefur alltaf verið mjög rík orðræða um pólitík og þjóðmál í fjölskyldunni.“

Talandi um fjölskyldu, þú átt konu og tvær dætur, flytja þær með þér norður? 

„Já, við förum öll fjölskyldan, auk tveggja katta og eins hunds. Ég hlakka mikið til að flytja norður og hef sterka tilfinningu fyrir því að þetta sé samfélag sem á ríka sögu sem það leggur rækt við og er stolt af. Ég þekki það auðvitað ekki til hlítar enn þá en ég er að banka á dyrnar og segja; „Halló, hvað eruð þið að elda? En skemmtileg lykt hérna hjá ykkur.“ Vonandi verður fólk tilbúið að deila því með mér.“

Frelsi fylgir ábyrgð

Það fer að líða að lokum þessa spjalls okkar en eina spurningu verð ég að fá að leggja fyrir þig: Hvaða maður er Jón Páll Eyjólfsson? „Nú vefst mér tunga um tönn að tala um sjálfan mig. Ég veit bara að ég er breyskur eins og annað fólk, er blessunarlega samt orðinn betri í að horfast í augu við það. Ég er líka reiðubúnari að viðurkenna þegar ég geri mistök en ég var. Mér finnst það eitt af því sem er mest áríðandi í samskiptum að geta viðurkennt þegar þú gerir eitthvað rangt. Ég reyni að starfa í kærleika og heiðarleika og einlægni því ég hef einlæga trú á að við getum og það sé nauðsynlegt að við lifum hér í samfélagi þar sem fólk fær að blómstra og njóta sín og ekki er gengið á rétt fólks. Ég trúi því líka að frelsi fylgi ábyrgð, það bara verður að hanga saman. Ef ég fengi einhverja greiningu yrði það líklega að ég væri á einhverfurófi með athyglisbrest, en ég hef lært að sýna þolinmæði og að það eru ekki allar hugmyndir sem ég fæ góðar. Ég held ég hafi líka þann hæfileika að eiga auðvelt með að leiða saman mjög skapandi og flott og fólk og ná, með ákveðnum vinnuaðferðum, því besta út úr því. Annars er mjög óþægilegt að tala svona um sjálfan sig, það er eins og verið sé að sjóða mann niður.“

Ókei, skal losa þig úr þeirri prísund með annarri frasaspurningu: Er eitthvað sem þér liggur á hjarta að lokum? 

„Eitt af því sem mér hefur tekist að kenna sjálfum mér er að það er aldrei hægt að segja aldrei, sumu getur maður bara ekki lofað. En ég reyni að gefa loforð sem ég get staðið við, þannig að maður gangi hreinskilnislega og einlægt til verks og starfi í kærleika. En í því felst að stundum þarf að segja hluti sem eru óbærilegir og ég er að vona að okkur takist í listalífinu á Akureyri að vera á mörkum hins óbærilega, því þar held ég að við finnum mest fyrir mennskunni, hvort sem það er óbærilegur hlátur, sorg eða óbærileg fegurð. Það er staðurinn sem ég vona að við komumst á. Ég get ekki lofað því að við komumst þangað en við munum reyna hvað við getum til að sú list sem við fremjum verði á þessum mörkum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×