Lífið

Get vel gengið og hlaupið með gervifót

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Ég skíða á öðrum fæti á venjulegu skíði en nota öðruvísi skíðastafi en aðrir skíðamenn. Æfi samt og keppi með jafnöldrum mínum.“
„Ég skíða á öðrum fæti á venjulegu skíði en nota öðruvísi skíðastafi en aðrir skíðamenn. Æfi samt og keppi með jafnöldrum mínum.“ Vísir/Valli
Hinn 14 ára Garðbæingur Hilmar Snær Örvarsson hefur bara einn venjulegan fót en lætur það ekki hindra sig í skíðaiðkun eða golfi heldur æfir af kappi.

Hver eru þín helstu áhugamál, Hilmar Snær? Ég er með tvö aðaláhugamál þessa stundina, það eru skíði og golf. Ég er mest á skíðum á veturna og á sumrin vil ég helst bara vera í golfi alla daga. Ég æfi skíði með skíðafélagi Víkings og golf hjá GKG.

Hvar æfir þú skíðaíþróttina? Við æfum í rauninni alltaf þegar það er opið í Bláfjöllum en stundum förum við í æfingaferðir út á land og til útlanda. Stundum eru æfingar alla daga vikunnar en þegar veðrið er vont eru engar æfingar.

Hvert hefur þú farið til útlanda að skíða? Ég hef farið til Ítalíu, Austurríkis, Noregs og Hollands í keppnis- og æfingaferðir.

Segðu okkur hvað greinir þig frá flestum öðrum skíðaiðkendum? Ég skíða á öðrum fæti á venjulegu skíði en nota öðruvísi skíðastafi en aðrir skíðamenn. Æfi samt og keppi með jafnöldrum mínum.

Keppir þú að einhverju sérstöku marki í skíðaíþróttinni? Ég er að keppa að því að ná sem bestum árangri í keppnum hér heima, ég keppti síðasta haust í fyrsta skipti með fötluðum unglingum og mér gekk ágætlega þar. Draumurinn væri þó að komast á Vetrarólympíuleika fatlaðra sem verða í S-Kóreu 2018. Vonandi tekst það.

Hvernig misstir þú fótinn? Ég fékk krabbamein í vinstri fótinn þegar ég var átta ára gamall. Því þurfti að taka hann en ég get vel gengið og hlaupið með gervifót.

Hvaða áhugamál kemur í þriðja sæti? Ég er svo mikið í skíðunum eða golfinu að ég hef ekki tíma fyrir fleiri áhugamál, en mér finnst þó mjög gaman að „tsjilla“ með vinum mínum úr skólanum eða skíðakrökkunum.

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór? Ég hef ekkert pælt í því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×