Lífið

Leynigesturinn var gestasöngvari árið 1975

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Alls verða sextán manns á sviðinu í Hörpu þegar mest lætur á tónleikunum.
Alls verða sextán manns á sviðinu í Hörpu þegar mest lætur á tónleikunum. Vísir/Ernir
Lokahnykkur langs og strangs æfingaferlis fyrir umfangsmestu tónleika Stuðmanna lauk í gær. Stuðmenn koma fram á tvennum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu í kvöld og einum á morgun og eru tónleikarnir tileinkaðir plötunni Sumar á Sýrlandi.

„Þetta verða sögulegir tónleikar í margþættum skilningi. Við erum að flytja okkar fyrstu breiðskífu og því fylgja sérstakar tilfinningar,“ segir Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon um tónleikana. „Ekki spillir fyrir að æfa í Sýrlandi fyrir Sumar á Sýrlandi tónleika,“ bætir Jakob við og hlær.

Mikið stuð í mönnum á æfingu í gær.vísir/ernir
Platan Sumar á Sýrlandi kom út árið 1975 og meðal gestasöngvara á plötunni voru Long John Baldry, Steinka Bjarna og Björgvin Halldórsson.

„Við verðum með einn leynigest á tónleikunum og sá einstaklingur var gestasöngvari á plötunni. Ekki er þó víst hvort hann er í hópi lífs eða liðinna. Meira get ég því miður ekki sagt að svo stöddu,“ segir Jakob Frímann og glottir, spurður í gestasöngvarana.

Alls verða sextán manns á sviðinu í einu á tónleikunum þegar mest lætur. Fyrir tónleikana hefur sveitin endurgert lagið Sumar á Sýrlandi og syngur Ágústa Eva Erlendsdóttir þessa nýju útgáfu en lagið er komið í nýjan og fagran sparibúning.

Þá mun Dúddi rótari, sem er ómissandi þar sem Stuðmenn koma saman, ekki láta sig vanta í Hörpu að þessu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×