Lífið

Skálað stórt í Bjórgarðinum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Loftur H. Loftsson, rekstrarstjóri Bjórgarðsins, og Arngrímur Sigurðsson listamaður standa hér við veglegt verkið.
Loftur H. Loftsson, rekstrarstjóri Bjórgarðsins, og Arngrímur Sigurðsson listamaður standa hér við veglegt verkið. vísir/vilhelm
Einstakt listaverk hefur verið vígt á nýjum veitinga- og skemmtistað sem ber nafnið Bjórgarðurinn og verður opnaður í næstu viku. Um er að ræða olíumálverk af tveimur einstaklingum að skála. „Þetta er allavega stærsta skál á Íslandi og örugglega þótt víðar væri leitað,“ segir Arngrímur Sigurðsson, 27 ára gamall listamaður, sem hannaði og teiknaði verkið. Hann segist ekki kalla það neinu sérstöku nafni heldur tali það sínu máli. „Þeir báðu um að fá skál þannig að ég leysti það á þennan hátt.“

Verkið er 3,5 x 2,5 metrar að stærð og tók sinn tíma að mála það. „Ég hef verið í svona tvær vikur með þetta. Það var líka mikil undirbúningsvinna,“ bætir Arngrímur við.

Loftur H. Loftsson, rekstrarstjóri Bjórgarðsins, er einkar ánægður með verkið. „Þetta er rosalega fallegt og vandað verk. Ég er ótrúlega ánægður með það,“ segir Loftur. Bjórgarðurinn, sem staðsettur er í Fosshótelinu í Þórunnartúni 1, kemur til með að verða samkomustaður bjóráhugamanna. 

Í Bjórgarðinum eru 22 kranar og tveir nítrókranar.
„Við erum að para saman mat og bjór, við dekrum ekki bara við þá sem eru lengra komnir í bjórmenningunni heldur erum við hérna líka fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref í þessum spennandi heim bjórs og matar. Hér geta allir fundið sinn stíl af bjór,“ segir Loftur. Í Bjórgarðinum eru 22 kranar og tveir nítrókranar.

„Nítrókraninn er ekki einungis notaður fyrir Guinness, heldur er að vakna áhugi á að setja aðra bjóra í „nítró meðferð“. Það er mýkri áferð á bjórnum sem kemur úr nítródælunni og öðruvísi bragð. Humlar tónast örlítið niður og maltið stígur fram í bjórnum,“ útskýrir Loftur. 

Hann segir staðinn ætla að vinna með íslenskum brugghúsum, eins og Borg og Ölvisholti, en einnig bjóða upp á framandi bjór sem hingað til hefur ekki verið í boði annars staðar. „Við er að fá þurrhumlaðan Skjálfta frá Ölvisholti, það verður svakalegt,“ bætir Loftur við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×