Ash Carter, varnamálaráðherra Bandaríkjanna, segir flugvélar Rússa hafa gert loftárásir á svæðum í Sýrlandi þar sem enga vígamenn ISIS sé að finna. Hann segir Rússa vera kasta olíu á eldinn. Varnamálaráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian tók í sama streng þegar hann ræddi við þingmenn í París.
Þá hefur NATO kvartað yfir því að Rússar hafi ekki greint frá árásum sínum nægilega. Erindrekar bæði Rússlands og Bandaríkjanna segja þó að viðræður verði haldnar eins fljótt og auðið er sem ætlað er að koma í veg fyrir atvik á milli NATO og bandamana þeirra annars vegar og Rússlands hins vegar.
Varnamálaráðuneyti Rússlands hefur birt meðfylgjandi myndband af loftárásum sem sagðar eru hafa verið gerðar á átta stöðum.
Samkvæmt AFP fréttaveitunni hafa yfirvöld í Frakklandi hafið rannsókn á því hvort að stjórn Assad hafi framið glæpi gegn mankyninu í Sýrlandi. Rannsóknin byggir á mestu á sönnunargögnum frá fyrrum ljósmyndara stjórnarhersins í Sýrlandi sem flúði land árið 2013. Hann gengur undir nafninu Caesar og tók með sér um 55 þúsund ljósmyndir.
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands segir myndirnar meðal annars sýna fanga stjórnarhersins pyntaða.
Um 250 þúsund manns hafa látið lífið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi sem hefur nú staðið yfir í rúm fjögur ár. Stjórnarherinn hefur verið sakaður um að hafa valdið dauða fleiri manns en Íslamska ríkið. Þá er talið að stjórnarherinn hafi varpað svokölluðum tunnusprengjum á íbúðarbyggðir og beitt efnavopnum.