Erlent

Enginn lögreglumaður ákærður vegna dauða tólf ára drengs

Bjarki Ármannsson skrifar
Tamir Rice var með leikfangabyssu á lofti þegar hann var skotinn til bana af lögregluþjóni.
Tamir Rice var með leikfangabyssu á lofti þegar hann var skotinn til bana af lögregluþjóni.
Dómstóll í Cleveland í Bandaríkjunum hefur ákveðið að ákæra ekki hvítan lögreglumann sem skaut svartan dreng til bana við skyldustörf í nóvember í fyrra.

Saksóknari í málinu segir að röð mannlegra mistaka hafi leitt til þess að hinn tólf ára Tamir Rice var skotinn. Það hafi verið skiljanlegt að lögreglumaðurinn sem skaut hafi óttast um líf sitt.

Rice hafði verið að leika sér með leikfangabyssu á leikvelli. Vegfarandi, sem átti leið hjá leikvellinum, hringdi í lögregluna og lét vita af Rice. Drengurinn hlýddi ekki fyrirmælum lögreglumannanna um að setja hendur upp í loft.

Yfirvöld í Cleveland hvöttu í dag almenning til að halda ró sinni og mótmæla ekki úrskurðinum nema á friðsælan hátt. Fjölmennar óeirðir hafa oft brotist út á undanförnum árum í tengslum við samskipti lögreglu og svartra borgara í Bandaríkjunum.

Það gerðist til dæmis eftir að lögregla í Ferguson skaut hinn óvopnaða Michael Brown og þegar Freddie Gray lést í umsjá lögreglu í Baltimore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×