Fótbolti

Guðbjörg aftur til Djurgården

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðbjörg er byrjunarliðsmarkvörður íslenska landsliðsins.
Guðbjörg er byrjunarliðsmarkvörður íslenska landsliðsins. vísir/getty
Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í fótbolta, er gengin í raðir Djurgården í Svíþjóð öðru sinni en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Guðbjörg kemur til Svíþjóðar frá norska liðinu Lilleström, en með því varð íslenski landsliðsmarkvörðurinn bæði Noregs- og bikarmeistari í ár.

„Auk þess að vera frábær markvörður er Guðbjörg mikill baráttuhundur. Hún hefur öðlast mikla reynslu og verður frábær viðbót fyrir okkur í úrvalsdeildinni,“ segir yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, Christian Kinnunen.

Guðbjörg þekkir vel til hjá Djurgården en hún spilaði með liðinu í fjögur ár frá 2009-2012 á fyrstu árum sínum í atvinnumennsku. Hún nú þegar að baki 81 leik fyrir félagið.

Djurgården spilaði í næst efstu deild á síðustu leiktíð en tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni með því að hafna í öðru sæti B-deildarinnar. Guðbjörg er þriðji öflugi leikmaðurinn sem Djurgården fær til sín en það ætlar sér stóra hluti á næsta ári í úrvalsdeildinni.

„Mér leið vel þegar ég var síðast hjá Djurgården þannig ég er mjög ánægð með að vera komin aftur. Djurgården ætlar að koma sér aftur á kortið og er búið að fá tvo sterka miðjumenn,“ segir Guðbjörg aá vef Djurgården.

Guðbjörg fær samkeppni um aðalmarkvarðarstöðuna hjá sænska félaginu en þar er fyrir Sussanne Nilsson, landsliðsmarkvörður Serbíu.

„Ég hef verið í mikilli samkeppni hjá síðustu þremur félögum sem ég hef verið hjá þannig það hvetur mig bara áfram,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×