Erlent

Ólétt sænsk stúlka í haldi ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Parið var handsamað í borginni Aleppo.
Parið var handsamað í borginni Aleppo. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins halda nú fimmtán ára gamalli stúlku frá Svíþjóð og kærasta hennar. Stúlkan er komin sex mánuði á leið. Parið flúði til Sýrlands til að ganga til liðs við Al-Qaeda hryðjuverkasamtökin.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Svíþjóðar segir AFP fréttaveitunni að vitað sé af ólögráða sænskum einstaklingi í Sýrlandi og að ráðuneytið sé í samskiptum við fjölskyldu viðkomandi. Annars hefur ráðuneytið lítið gefið út.

Miðlar í Svíþjóð segja að stúlkan hafi horfið úr bænum Boras, sem er nærri Gautaborg, í lok maí. Hún og 19 ára kærasti hennar eru sögð hafa ferðast til Tyrklands og þaðan til Sýrlands, þar sem þau hafi gengið til liðs við Al-Qaeda.

Parið er svo sagt hafa verið handsamað af ISIS í borginni Aleppo í byrjun ágúst og að þau hafi verið flutt á yfirráðasvæði ISIS. Stúlkan er sögð hafa hringt þrisvar sinnum í móður sína úr símum sem henni hefur tekist að útvega sér.

„Ég ræddi síðast við hana í gær og komst að því að henni er haldið af hópi kvenna,“ segir móðir stúlkunnar. Hún fær ekki að hitta kærasta sinn og er mjög hrædd samkvæmt móður sinni. „Við vitum ekki hvernig við eigum að koma henni úr Sýrlandi. Nú þegar hún er í haldi ISIS er það erfiðara en áður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×