Erlent

Árásin í IKEA: Hefðum verið þarna hefði ég farið með

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Hefði ég verið með í för hefðum við sennilega farið í þessa IKEA verslun,“ segir rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl en hann býr í fimm mínútna fjarlægð frá versluninni í Västerås þar sem tvær manneskjur voru stungnar til bana skömmu eftir klukkan eitt að staðartíma í dag.

Eiríkur og eiginkona hans, Nadja Widell, vinna nú að flutningum til Ísafjarðar og höfðu Nadja og faðir hennar farið í leiðangur til að kaupa pappakassa, límband, plast og allt það sem þú þarft þegar kemur að flutningum.

„Nadja er með mjög mikla fordóma gagnvart IKEA og vill helst ekki fara þangað. Úr því að þau fóru bara tvö þá suðaði hún það út að fara í aðra verslun. Ef ég hefði farið með þeim hefðum við verið þarna akkúrat á þeim tíma sem árásin var gerð,“ segir Eiríkur.

Glæpir og ofbeldi undir friðsælu yfirborði

Tveir létu lífið, karl og kona, í árásinni og var annar fluttur alvarlega særður á sjúkrahús þar sem hann er nú í aðgerð. Árásarmaðurinn var handtekinn og samkvæmt fyrstu fregnum virðist ekki hafa verið nein tenging á milli hans og fórnarlambanna.

„Þetta er svo rosalega skrítið eitthvað. Fyrir örfáum dögum var ég þarna með tveggja ára dóttur minni og leyfði henni að leika sér aðeins meðan ég skoðaði rekkana. Það setur að manni smá hroll þegar maður hugsar út í þetta.“

Frá heimili sínu sér Eiríkur engan viðbúnað en þarf þó ekki að fara langt til að verða var við lögreglubíla sem lokað hafa götum. Västerås er 110.000 manna borg þar sem Eiríkur segir að við fyrstu sýn virðist mjög friðsæl. Maður verði lítið var við glæpi og vesen á yfirborðinu.

„Maður þarf hins vegar ekki að lesa fréttir í marga daga til að sjá að það er hellingur af glæpum, ofbeldi og ógeði undir glansinu,“ bendir Eiríkur á og bætir við „að það sé ekkert svona á Ísafirði. Það verður gott að komast þangað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×