Erlent

Mættu með kýr í stórmarkað til að mótmæla lágu afurðaverði

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kýrnar á göngum Asda verslunarinnar.
Kýrnar á göngum Asda verslunarinnar.
Breskir kúabændur mættu með tvær kýr í verslun í Stafford í gær. Með því vildu þeir mótmæla því hve lágt verð þeir fá fyrir afurðir sínar.



Um sjötíu manns tóku þátt í mótmælunum og, eins og áður sagði, tvær kýr. Leiddu þeir þær um ganga verslunarinnar auk þess að þeir tæmdu mjólkurkælana til að vekja athygli á bágri stöðu bænda. Að endingu var fólkinu og dýrunum vísað úr versluninni.

Mótmælin fóru fram í verslun verslunarkeðjunnar Asda en helsti eigandi Asda er bandaríski risinn Walmart. Mjólkurlítrinn kostar þar 89 pens eða um 185 íslenskar krónur. Bændur segja að það kosti um 30-35 pens að framleiða hvern lítra af mjólk en Arla, helsti mjólkurvöruframleiðandi Bretlands, lækkaði nýlega verðið til bænda niður í 23 pens fyrir lítrann.

Flestir Íslendingar ættu að kannast við Arla en fyrirtækið hefur að undanförnu átt í deilum við Mjólkursamsöluna út af skyri sem Arla framleiðir og markaðssetur sem íslenska vöru.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×