Erlent

Sprengdi sig í loft upp skammt frá millilandaflugvelli Kabúl

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjórir létust í kjölfar sprengingarinnar.
Fjórir létust í kjölfar sprengingarinnar. vísir/ap
Fjórir menn létust og minnst sautján særðust er maður sprengdi sig og bíl sinn í loft upp við öryggishlið skammt frá alþjóðaflugvellinum í Kabúl, höfuðborg Afganistan. Starfsmenn segja að sprengingunni hafi verið beint að röð vopnaðra bíla.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en fyrir helgi gerðu Talíbanar þrjár árásir en alls létust um fimmtíu manns í kjölfar árásanna. Fyrsta árásin átti sér stað í lögregluskóla borgararinnar er maður sprengdi sig. Auk hans létust tuttugu nemar við skólann. Skömmu síðar réðst maður að herstöð NATO og náði að fella ellefu áður en hann var felldur. Fyrr um daginn var gerð sprengjuárás á aðra herstöð þar sem fimmtán fórust.

„Okkur grunar að aukinn fjöldi árása að undanförnu tengist valdabaráttu innan raða Talíbana,“ segir Nicholas Haysom en hann fer fyrir verkefni Sameinuðu Þjóðanna í Afganistan.

Fyrir rúmri viku birtu Talíbanar myndband þar sem þeir hylltu Mullah Akhtar Mansour sem nýjan leiðtoga sinn en skömmu áður hafði það fengist staðfest að Mullah Omar, leiðtogi þeirra til tæpra tveggja áratuga, hefði látist árið 2013.

Ashraf Ghani, forseti landsins, mun flytja ávarp síðar í dag til að ræða öryggismál landsins.


Tengdar fréttir

Fjörutíu féllu í valinn í röð árása skæruliða á Kabúl

Skæruliðar myrtu fjörutíu í höfuðborg Afganistans um helgina. Meirihluti hinna látnu voru almennir borgarar og verðandi lögreglumenn. Talibanar lýstu yfir ábyrgð á einni árás. Talibanar skipuðu nýjan leiðtoga í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×