Maðurinn, sem lögreglan sat um við íbúð í Hlíðarhjalla í Kópavogi í dag, hefur ekkert verið heima hjá sér að undanförnu. Þetta segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson kynningarfulltrúi lögreglunnar í samtali við fréttastofu.
Að sögn Gunnars náði lögreglan tali af manninum fyrr í dag en vildi ekki veita nánari upplýsingar um hvort maðurinn gangi enn laus eða hvar hann sé niðurkominn.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, stöðvarstjóri í Kópavogi, sagði þó við fréttastofu fyrr í kvöld að íbúar þyrftu ekki að hafa áhyggjur og hefur þeim verið heimilað að snúa aftur til síns heima.
Gunnar segir að rannsókn lögreglunnar, í ljósi þess að maðurinn hefur ekki verið heima hjá sér að undanförnu, snúist nú að mestu um að leita skýringa á þeim hvellum sem tilkynningar bárust um á fjórða tímanum í dag.
Uppfært klukkan 21:25
Íbúðin, sem lögreglan hafði setið í um 6 klukkustundir, reyndist mannlaus. Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér nú rétt í þessu. Þar segir einnig að ekki er vitað hvort að um raunverulega skothvelli hafi verið að ræða. Lögreglan fór á sama vettvang í gær en þá fundust ummerki um að hleypt hafi verið úr haglabyssu á grindverk utan við húsið. Þá hafi lögreglan farið inn í íbúðina á níunda tímanum í kvöld og handlagt skotvopn og skotfæri.
Lögreglan ítrekar mikilvægi þess að slíkar tilkynningar séu teknar alvarlega og farið sé með gát þegar grunur leikur á að um skothvelli sé að ræða í íbúabyggð.
Uppfært klukkan 21:15
Aðgerðum lögreglunnar við Hlíðarhjalla í Kópavogi er að ljúka. Búið er að kalla til baka sjúkrabíla sem höfðu verið á vettvangi en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var enginn í þeim utan sjúkraflutningamannanna. Lögregluaðgerðir höfðu staðið yfir við blokkina frá því á fjórða tímanum í dag.
Uppfært klukkan 19:40
Tveimur ungum konum og einu barni var hleypt út úr blokkinni við Hlíðarhjalla 53 um klukkan 19:40. Talið er að maður vopnaður haglabyssu haldi til í íbúð sinni. Aðrir íbúar hafa haldið til í blokkinni í dag á meðan á aðgerðum stóð en nú er talið að maðurinn sé einn í fjölbýlishúsinu.
Sérsveitarmenn voru kallaðir út að fjölbýlishúsinu á fjórða tímanum vegna nokkurra ábendinga um skothvelli. Maðurinn er sagður hafa hleypt af byssunni af svölum íbúðar sinnar.
Nærliggjandi svæðum við skólann var lokað og skólum í nágrenni gert viðvart. Síðustu nemendur í Álfhólsskóla Hjalla, sem stendur rétt við blokkina, voru farnir heim og aðeins starfsmenn á vettvangi. Var skólanum læst. Enn voru nemendur í Álfhólsskóla Digranesi sem er í nokkuð meiri fjarlægð frá blokkinni en þar var börnum haldið innandyra þar til foreldrar mættu á svæðið að sögn Sigrúnar Bjarnadóttur skólastjóra.
Brýnir lögregla fyrir fólki að virða lokanir.
Sjá einnig:„Hver veit hefði hann verið í aðeins verra skapi“
Lögreglan hefur reynt að ná sambandi við manninn í lengri tíma en án árangurs. Sérsveitarmenn sáust fara inn í blokkina með skjöld um klukkan 16:40. Talið er að samningamaður hafi verið með þeim í för. vinnur nú að því að ná sambandi við manninn en sjónarvottar sáu sérsveitarmenn fara inn í blokkina með skjöld um klukkan 16:40. Talið er að samningamaður lögreglunnar hafi verið með þeim. Þá hefur leyniskytta komið sér fyrir við húsið eins og sjá má á myndum sem fylgja þessari frétt af vettvangi.
Sjá einnig:Skotið á bíl úr haglabyssu á sama stað í apríl
Ásgeir Þór Ásgeirsson, stöðvarstjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi og Breiðholti, sagði við fréttastofu síðdegis að lögregla hefði tekið þá ákvörðun í kjölfar ábendinga nágranna að loka ákveðnu svæði í kringum fjölbýlishúsið.
„Sérsveitin var kölluð á vettvang og þeir eru búnir að einangra þessa íbúð sem við teljum að þetta ástand gæti verið í. Það er unnið að lausn málsins og sérsveitin fer með stjórn vettvangs.“

Þegar rætt var við Ásgeir skömmu fyrir klukkan sex sagði hann engin svör hafa borist úr íbúðinni. „Við munum halda þessu umsátri áfram þangað til að annað kemur í ljós.“
Ásgeir sagði að lögreglan hefði verið í sambandi við alla íbúa í húsinu. Þeir væru í lagi.
„Þau eru alveg örugg þar sem þau eru núna. Við teljum okkur vera með fulla stjórn á aðstæðum.“ Ásgeir vildi ekki segja til um hve margir væru eftir í húsinu né hve margir lögreglumenn væru að störfum. Tvær ungar konur og barn yfirgáfu húsið í fylgd lögreglu um klukkan 19:40. Talið er að síðan sé byssumaðurinn einn íbúa eftir í húsinu.
Margir íbúar á svæðinu hafa fylgstmeð störfum lögreglu í dag. Þá er slökkvilið með sjúkraflutningamenn á staðnum. Íbúi í húsinu sem setti sig í samband við fréttastofu segir að haglaskot fundist í hafi fundist í girðingu í garðinum. Útlit hafi verið fyrir um að þeim hafi verið skotið úr íbúð mannsins.
Frétt síðast uppfærð klukkan 19:45. Hún verður uppfærð eftir því sem frekari upplýsingar berast.
Veistu meira um málið? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.



