Lífið

Tímabært að efla fjölmiðlarannsóknir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigrún Stefánsdóttir segir að nýja námsleiðin verði í boði fyrir nema í fjarnámi.
Sigrún Stefánsdóttir segir að nýja námsleiðin verði í boði fyrir nema í fjarnámi. fréttablaðið/Auðunn
Nýtt meistara- og diplómanám í fjölmiðla- og boðskiptafræðum hefst í haust í samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Meginmarkmið námsins er að auka skilning á flóknu, fjölbreyttu og síbreytilegu fjölmiðlaumhverfi, þar sem stafræn tækni, netið og samfélagsmiðlar skipa sífellt stærri sess í lífi flestra.

Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, segir að þetta nýja nám sé freistandi framhald af því námi sem hefur verið í boði. „Núna erum við búin að vera hér í mörg ár á Akureyri með fjölmiðlanám til BA-prófs. Síðan hefur ekki verið neitt eðlilegt framhald fyrir þá nema,“ segir Sigrún. Þetta nýja meistara- og diplómanám sé öflug viðbót. „Rannsóknir á fjölmiðlaumhverfinu hafa verið takmarkaðar og við teljum að þetta geti stuðlað að öflugri sókn þar. Og það er orðið afskaplega tímabært að gera það, svoleiðis að nýja námið er mikill fengur fyrir þetta samfélag,“ segir hún.

Sigrún segir að boðið verði upp á þessa nýju námsleið í fjarnámi þannig að nemendur geti stundað það hvar sem er í heiminum. Þá sé boðið upp á 30 eininga diplómanám sem sé kjörið fyrir starfandi fjölmiðlamenn sem vilja bæta við sig einhverju án þess að ætla að fara í langt nám. „Þetta er spennandi samstarfsverkefni. Við eigum sjálfsagt eftir að reka okkur á einhverja þröskulda. En þær þrautir eru bara til þess að leysa,“ segir hún.

Sigrún segir að Háskólinn á Akureyri hafi verið mjög öflugur í fjarnámi og það sé mjög gaman að það sé hætt að skipta máli hvar nemendur hafa aðsetur. „Í dag erum við með nemendur út um allt, í Asíu, Ameríku og Evrópu,“ segir Sigrún. Hún segir að Háskólinn á Akureyri hafi verið leiðandi á þessu sviði og þetta nýja nám sé spennandi framhald á því. „Við erum alltaf að þróa þau vinnubrögð og Háskóli Íslands er að stíga þetta skref líka og býður þetta í fjarnámi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×