Lífið

Færa fjörið aftur heim í hverfið

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hátíðin mun meðal annars fara fram í höggmyndagarði Hallsteins Sigurðssonar myndhöggvara. Hér er hluti Breiðhyltinga sem koma að hátíðinni.
Hátíðin mun meðal annars fara fram í höggmyndagarði Hallsteins Sigurðssonar myndhöggvara. Hér er hluti Breiðhyltinga sem koma að hátíðinni. vísir/stefán
Hugmyndin var að færa listamenn úr Breiðholti aftur heim í Breiðholtið,“ segir Valgeir Sigurðsson, einn skipuleggjenda Breiðholt festivals.

„Okkur langaði líka að lífga upp á hverfið og þar sem það koma margir listamenn og framkvæmdafólk af þessu svæði er gaman að hóa í alla aftur. Sjón verður þeirra á meðal en hann var hluti af Medúsahópnum sem spratt upp úr Breiðholtinu þegar hverfið var að byggjast upp.“

Valgeir segir lítið af uppákomum í hverfinu og að hugmyndin hafi komið þegar hann var í göngutúr í dalnum þar sem festivalið er haldið, það er á grónu svæði í hjarta Seljahverfisins í námunda við gamla bæjarstæði Breiðholts sem hverfið dregur nafn sitt af.

„Þetta er tilvalið til að sjá framan í nágrannana og setja jákvæðan fókus á Breiðholtið en það er ekki endilega í allra hugum spennandi heim að sækja. Við viljum leiðrétta þann misskilning.“

Valgeir og listamenn sem koma fram á hátíðinni hafa staðið fyrir fullt af tónleikum og uppákomum í miðbæ Reykjavíkur.

„Við höfum alltaf verið að dröslast niður í bæ þannig að þetta er viðleitni til að gera þetta heima í héraði.“

Á hátíðinni verður sem fyrr segir dagskrá með Breiðhyltingum, einnig verður dans- og tónlistarsmiðja í boði og markaður með sölubásum. Hátíðin endar með tónleikum þar sem Ben Frost, Kira Kira og Samaris koma meðal annars fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×