Lífið

Erfitt að lifa með átröskun: „Ég hélt að svona væri það bara að vera stelpa í dag“

Bjarki Ármannsson skrifar
Freyja Hrund Ingveldardóttir lauk í síðustu viku sálfræðimeðferð við átröskun.
Freyja Hrund Ingveldardóttir lauk í síðustu viku sálfræðimeðferð við átröskun. Myndir/Freyja Hrund/Getty Images
„Þetta er stórhættulegur vítahringur sem maður festist í,“ segir Freyja Hrund Ingveldardóttir, 24 ára félagsfræðinemi sem lauk í síðustu viku sálfræðimeðferð við átröskun. Freyja segir sjúkdóminn hafa stjórnað sér alveg í mörg ár, að svo miklu leyti að hún sleppti ferðalögum með vinum og neyddi sig oft til að kasta upp mat. Hún segist hafa „skammast“ sín fyrir að þjást af átröskun en fengið mikinn stuðning þegar hún greindi frá því að hún ætti við vandamál að stríða.

Svona væri það bara að vera stelpa í dag

Freyja á erfitt með að segja nákvæmlega hversu lengi hún hafi glímt við sjúkdóminn. Hún segist hafa lagt mikla áherslu á að líta vel út og vera grönn frá því að hún komst á unglingsárin en ekki áttað sig á því fyrr en í fyrra að hún gæti mögulega átt við átröskun að stríða.

„Það byrjaði mjög saklaust, eins og hjá mörgum öðrum,“ segir Freyja. „Ég var búin að telja mér trú um að svona væri það bara að vera stelpa í dag, við hefðum allar áhyggjur af því að líta vel út og þannig væri það bara.“

Freyja segir að hún hafi í kringum fjórtán ára aldurinn byrjað að tína hitt og þetta úr mataræðinu og að mæta í ræktina fyrir skólann, en hún æfði líka fótbolta á þessum tíma. Með árunum náði sjúkdómurinn heljartökum á henni og Freyja segir að undir lokin hafi hann stjórnað henni alveg, án þess þó að hún hafi gert sér grein fyrir því.

Freyja ásamt fjölskyldu sinni við útskrift úr menntaskóla.Mynd/Freyja Hrund
Hugsaði alltaf að aðrar væru veikari

„Að lifa með átröskun er mjög erfitt,“ segir hún. „Ég þurfti að byrja alla daga á að vigta mig og út frá þeirri tölu sem vigtin sýndi planaði ég daginn, hvernig ég ætlaði að æfa, hvernig mér mætti líða og hversu mikið ég gæti borðað. Ef ég var hundrað grömmum þyngri en daginn áður, var dagurinn ónýtur.“

Vegna hræðslu við að missa stjórn á mataræðinu sleppti hún því oft að taka þátt í til dæmis ferðalögum eða að fara út á lífið með vinum. Hún var stanslaust í „átaki,“ prufaði nýja megrunarkúra, þjálfara, brennsluefni og fleira sem átti loksins að koma henni í rétta formið. Hún segist hafa átt það til, eftir marga daga af einhæfu mataræði, að gefa undan og kaupa mikið af mat sem hana langaði sjálfa til að borða en hún hafði neitað sér um. Eftir að hafa neytt matarins, hafi hún fyllst samviskubits og kastað því öllu upp.

„Eftir það leið mér ennþá verr og niðurrifið varð ennþá meira,“ segir hún. „Mér fannst erfitt að segja frá því og leita mér aðstoðar vegna þess að ég var ekki að svelta mig, svo að ég var ekki að glíma við anorexíu. Ég kastaði ekki öllu upp sem ég borðaði, svo að ég var ekki með búlimíu. Ég flakkaði eitthvað þarna á milli en hausinn var veikastur. Ég hugsaði alltaf að það væri hellingur af stelpum miklu veikari og uppteknari af þessu en ég og fannst ég því enga hjálp þurfa.“

Freyja lýsir ástandinu þannig að átröskunin hafi verið hennar versti óvinur og besti vinur á sama tíma. Sjúkdómurinn hafi séð til þess að hún hafi ekki borðað mat sem hækkaði töluna á vigtinni en henni hafi samt alltaf liðið illa og hún aldrei verið ánægð með sjálfa sig.

Freyja segist hafa fengið mikinn stuðning frá Andra, kærasta sínum.Mynd/Freyja Hrund
Missti það hálfpartinn út úr sér að eitthvað væri að

„Fyrir rúmu ári síðan fór ég að velta því fyrir mér hvort ég gæti verið með einhverskonar átröskun, það gæti ekki verið eðlilegt að vera svona upptekin af mat og útliti að það stjórni algjörlega hvernig mér líði og hvað ég geri,“ segir Freyja. „Það gerðist eiginlega alveg óvart að ég sagði frá, ég missti það hálfpartinn út úr mér við kærasta minn að eitthvað væri að. Ég var orðin uppgefin á þessu og mig langaði að líða betur.“

Hún segist strax hafa fengið mikinn stuðning frá kærasta sínum, fjölskyldu og vinum. Móðir hennar hafi til að mynda byrjað á námskeiði fyrir aðstandendur átröskunarsjúklinga áður en Freyja mætti í fyrsta sálfræðitímann sinn.

„Ég vissi þegar ég sagði frá að auðvitað myndu ekki allir skilja, sem er mjög skiljanlegt því þetta er auðvitað falinn sjúkdómur og ég skammaðist mín heilmikið fyrir að þjást af honum,“ segir Freyja. „Mér fannst erfitt að segjast vera með átröskun vegna þess að ég hef aldrei verið of mjó og aldrei of feit, heldur alltaf verið heilbrigð og hraust. Það er svo algengt þegar fólk hugsar um átröskunarsjúklinga að það haldi að það séu bara stelpur sem eru svo horaðar að hægt er að telja í þeim rifbeinin. En málið er að þetta er andlegur sjúkdómur sem er algjörlega óháður holdarfari.“

Fjölskyldan byrjaði á því að hringja og fá ráðleggingar frá átröskunarteymi Landspítalans en þeim var sagt að hjá teyminu væri þriggja til fjögurra mánaða bið eftir meðferð. Freyja taldi sig ekki geta beðið svo lengi og leitaði því til sérhæfðs sálfræðings á einkastofu. Þeirri meðferð lauk í síðustu viku, með þeim skilyrðum að Freyja hafi aftur samband ef hún telji sig þurfa þess.

Í kvöld fékk ég mér ís. Hann var í brauðformi og með súkkulaðibitum, hann var án samviskubits og niðurrifs. Í vikunni ú...

Posted by Freyja Hrund Ingveldardóttir on 15. maí 2015
Hún segir það taka mjög á að mynda aftur eðlileg tengsl við mat og hreyfingu en að henni hafi alltaf tekist það sem hún ætli sér og er viss um að eins verði með þetta. Hún segir útlitskröfur samfélagsins óraunhæfar og að það gildi jafnt um stelpur sem stráka.

„Allstaðar í kringum okkur sjáum við ákveðnar hugmyndir um það hvernig við eigum að líta út og hvernig sé best að vera,“ segir Freyja. „Frá því að við erum börn eiga stelpur að vera sætar og fínar og strákar stórir og sterkir. Það eru oft útlitslegir þættir sem talað er um og ýtt undir, svo heldur það áfram þegar við eldumst.

Mér finnst þurfa að leggja áherslu á aðra kosti sem skipta miklu meira máli, til dæmis að standa með sjálfum sér og koma vel fram við náungann. Við þurfum að kenna börnum strax hvað heilbrigði er, það er ekki samasem merki á milli þess að vera mjór og að vera heilbrigður. Kennum börnum og unglingum að borða hollt og hreyfa sig til þess að líða vel, ekki til þess að líta vel út.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×