Húsaleiga á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um nærri helming á síðustu fjórum árum eða um 41 prósent. Hátt leiguverð kemur hvað harðast niður á ungu fólki sem leitar nú í sívaxandi mæli til umboðsmanns skuldara. Formaður velferðarnefndar Alþingis sakar ríkisstjórnina um aðgerðarleysi í málinu.
Húsaleiga hefur farið hratt hækkandi frá árinu 2011 samkvæmt tölum Hagfræðideildar Landsbankans.
Tveggja herbergja, 60 fermetra íbúð í vesturbæ Reykjavíkur kostar að meðaltali um 148 þúsund krónur á mánuði. Svipuð íbúð í Breiðholti kostar 121 þúsund og 125 þúsund í Kópavogi. Á Akureyri er leigan 90 þúsund krónur.
Hækkandi leiguverð hefur skapað mikinn vanda hjá ungu fólki sem leitar nú í sívaxandi mæli til umboðsmanns skuldara.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur boðað frumvörp sem eiga að taka á þessum vanda. Frumvörpin hafa þó enn ekki litið dagsins ljós.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður Velferðarenfndar Alþingis sakar ríkisstjórnina um seinagang í málinu.
„Þetta er mjög alvarleg staða. Það er búið að bíða allt kjörtímabilið eftir aðgerðum. Það er skortur á húsnæði og það er ónægur stuðningur við leigjendur sem er að valda þessu ástandi,“ segir Sigríður.
Húsaleiga á höfuðborgarsvæðinu hækkað um nærri helming
Höskuldur Kári Schram skrifar