Ljósmyndasýningin Verksummerki stendur nú yfir í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en sýningin er hluti af Listahátíðinni í Reykjavík. Hér er á ferðinni sýning sex ólíkra ljósmyndara með skemmtilegan bakgrunn sem eiga það sameiginlegt að vinna með sitt eigið líf í verkum sínum.
Ljósmyndararnir eru Agnieszka Sosnowska, Kristina Petrošiute, Bára Kristinsdóttir, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Skúta og Daniel Reuter en sýningarstjóri er Brynja Sveinsdóttir.
„Kjarni sýningarinnar er ljósmyndarinn sjálfur, sem er ekki aðeins hinn ávallt nálægi áhorfandi og sögumaður heldur sjálft viðfangsefni verkanna,“ segir Brynja og bendir á að sýningin hafi sérlega sterka nálgun við samtímann. Myndirnar á sýningunni fanga verksummerki ljósmyndaranna í myndadagbókum, sjálfsmyndum og myndaröðum sem endurspegla nærumhverfi þeirra, reynslu og minningar. „Á okkar tímum er notkun ljósmynda gríðarlega mikil og persónubundinn.“
„Agnieszka er til að mynda að vinna með mjög leikrænar frásagnir og notar sína eigin persónu mikið í sínum myndum. En svo eru t.d. Skúta og Hallgerður stöðugt að mynda umhverfi sitt og vinna með það. Skúta setur t.d. sínar myndir fram þannig að gestir fá að róta í myndunum og skoða þær í krók og kima. Það gefur ákaflega sterka tilfinningu fyrir lífi manneskjunnar og gerir þetta mjög persónulegt. Þannig er oft verið að vinna með það sem er í senn hversdagslegt og athyglisvert í senn,“ segir Brynja að lokum.
Menning