Innlent

Endurskoða þurfi ábyrgð ríkisins frekar en handtökuaðferðir

Sunn Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Á myndbandinu sem náðist af atvikinu sést að þegar konan var komin upp að hlið bílsins hrækti hún á lögreglumanninn sem ók lögreglubifreiðinni.  Hann fór út úr bílnum og greip í konuna sem skall á bekk og þaðan í jörðina. Því næst var hún færð í lögreglubílinn.
Á myndbandinu sem náðist af atvikinu sést að þegar konan var komin upp að hlið bílsins hrækti hún á lögreglumanninn sem ók lögreglubifreiðinni. Hann fór út úr bílnum og greip í konuna sem skall á bekk og þaðan í jörðina. Því næst var hún færð í lögreglubílinn.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, telur ekki þörf á að endurskoða handtökuaðferðir hér á landi. Hann segir hins vegar að endurskoða þurfi ábyrgð ríkisins í rannsóknum á málum sambærilegum máli lögreglumannsins sem á síðasta ári var dæmdur fyrir líkamsárás, þrátt fyrir að hafa beitt viðurkenndi handtökuaðferð.

Líta þurfi til nágrannaþjóða

„Eina leiðin sem svona mál geta farið í dag er í rannsókn og síðan ákærumeðferð hjá ríkissaksóknara og þaðan til úrskurðar fyrir dómi. Það er ekki til nein hlutlaus innri endurskoðun sem fer yfir svona mál. Þau verða að fara þennan farveg og þess vegna ætti að endurskoða húsbóndaábyrgð stofnana ríkisins í svona málum. Það gæti jafnvel verið einhver bótaskylda ríkissjóðs vegna meiðsla við handtökuna,“ bætir hann við og segir að líta ætti til nágrannaþjóðanna.

„Það þarf að koma á einhverju öðru kerfi svipuðu og er til dæmis í Bretlandi, víða í Bandaríkjunum, Danmörku og Svíþjóð, þar sem svona mál eru skoðuð sérstaklega, þ.e ekki af aðilum innan lögreglukerfisins sem þá rannsaka hvort rétt hafi verið staðið að málum, hvort rétt hafi verið að handtaka viðkomandi,“ segir Snorri.

Viðurkennd aðferð sem ekki þarf að endurskoða

Lögreglumaðurinn sem um ræðir var vikið frá störfum í gær en hafði ekki verið við störf frá 8. júlí 2013. Hann var á síðsta ári dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás við handtöku á konu á Laugavegi sumarið 2013. Atvikið vakti mikla athygli og var áberandi í fjölmiðlum, enda náðist það á myndband og fór sem eldur í sinu um netheima. Lögreglan sætti mikilli gagnrýni í kjölfarið og var maðurinn sagður hafa beitt óþarfa harðræði.

Snorri segir að um hafi verið að ræða viðurkennda handtökuaðferð. Sú aðferð sé norsk en að norskt handtökukerfi hafi verið tekið upp hér á landi fyrir nokkrum árum. Því hafi lögreglumaðurinn beitt viðurkenndri aðferð á konuna ölvuðu en að það hefði verið óheppilegt að bekkurinn, sem konan slengdist utan í, hafi verið þarna.



Jón Viðar Arnþórsson, stofnandi Mjölnis, hefur gagnrýnt norsku aðferðina sem lögreglan beitir. Hann sagði í fréttum Stöðvar 2 að aðferðin væri hættuleg. Hún er þó lögleg, samþykkt af stjórnvöldum og margreynd fyrir dómstólum. 

Stórt og flókið mál

„Maðurinn var að vinna þarna að sínum störfum og þetta leit illa út á myndbandi, eins og allar aðrar handtökur gera. Í dómnum var lítið tillit tekið til framburðar þeirra lögreglumanna sem kenna þessar aðferðir í lögregluskólanum, og við það erum við ósáttir,“ segir hann og bætir við að málið sé mun flóknara og stærra en raun beri vitni.

„Það er búið að dæma viðkomandi í skilorðsbundið fangelsi gegn valdstjórninni vegna ofbeldis, eða fyrir að hrækja í andlit lögreglumanns. Í svoleiðis tilvikum getur verið um mögulega smithættu að ræða sem getur þýtt óvissu fyrir viðkomandi lögreglumann í allt að sex mánuði á meðan beðið er niðurstöðu úr blóðrannsóknum, og það eru fordæmi fyrir því. Þannig að það er ýmislegt þarna sem kemur ekki fram og þarf að skoða,“ segir Snorri að lokum.

Konan sem var handtekin játaði brot sín skýlaust og var dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í október 2013. Hún vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var óskað.  

Myndbandið af handtökunni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 


Tengdar fréttir

Segir lögreglumanninn hafa verið pirraðan

Á myndbandi úr eftirlitsmyndavél á svæðinu sést að aðeins 80 sekúndur liðu frá því að lögreglan gaf konunni fyrst merki um að standa upp af götunni þar sem hún sat og þar til hún hafði verið handtekin og sett inn í lögreglubifreið.

"Ég hef aldrei séð fallega valdbeitingu“

Kennarar við lögreguskólann gáfu áðan skýrslu vegna lögreglumanns sem ákærður er fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi. Þeir segja að sá ákærði hafi fengið of litla þjálfun - lögreglumenn fengju yfir höfuð of litla þjálfun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×