Erlent

Kveiktu í tjöldum til að mótmæla slæmum aðbúnaði

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Flóttamenn segja stjórnvöld ekki standa sig í stykkinu í skráningum.
Flóttamenn segja stjórnvöld ekki standa sig í stykkinu í skráningum. vísir/epa
Flóttamenn kveiktu í kvöld í tjöldum sínum til að mótmæla slæmum aðbúnaði í flóttamannabúðunum í Brezice við landamæri Slóveníu. Þeir segja mikinn skort á öllum helstu nauðsynjum; mat, vatni og teppum og gagnrýna seinagang stjórnvalda.

Flóttamenn í Brezice segjast orðnir langþreyttir.vísir/epa
Eftir að Ungverjar lokuðu landamærum sínum hefur öllu flóttafólki á leið til Þýskalands og Austurríkis verið beint til Slóveníu. Allt að átta þúsund manns hafa lagt leið sína að landamærunum daglega undanfarin misseri, en stjórnvöld segjast einungis geta tekið við 2.500 manns og hafa því margir komið að lokuðum dyrum.

Slóvensk stjórnvöld þurfa að fara eftir ákveðnum reglum þegar kemur að skráningu flóttafólks. Hælisleitendur segja stjórnvöld þó ekki standa sig í stykkinu í skráningunni og segjast orðnir langþreyttir. Þeir vilji ekkert frekar en að komast á leiðarenda eins fljótt og auðið sé.

Slóvenar segja landamærin þó að þolmörkum komin og hafa því óskað eftir frekari liðsauka frá Evrópusambandinu, en þegar hafa þeir virkjað herinn til að aðstoða lögregluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×