Lífið

Stigu barrokkdans í búningum

Hárkolluklæddir meðlimir Mótettukórs Hallgrímskirkju liðu um kirkjugólfið í Skálholti í byrjun marsmánaðar. Þar stigu þeir átjándu aldar barokkdans íklæddir búningum sem hæfðu tilefninu.

"Þetta var óskaplega gaman. Við lögðum mikinn metnað í að dansa vel og þótt dansinn sé kómískur fannst okkur við vera afar tignarleg í búningunum,“ segir Þórhallur Vilhjálmsson tenór en dansinn var hluti af skemmtiatriði í tilefni af æfingabúðum og árshátíð Mótettukórsins.

Mikið var lagt í atriðið. Ingibjörg Björnsdóttir, listdanskennara, sagnfræðingur og fyrrverandi skólastjóri Listdansskóla Íslands kenndi átján manna hópi svokallaðan barokkhornpipe-dans við kafla úr Vatnatónlist Händels sem kallast „Alla Hornpipe“.

Búningar voru fengnir að láni hjá Íslensku óperunni og hárkollur voru keyptar í karnivalbúð í London.

Mótettukórinn mun flytja verkið Passía, op. 28, eftir Hafliða Hallgrímsson í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa klukkan 17. Flytjendur á tónleikunum auk Mótettukórsins eru einsöngvararnir Elmar Gilbertsson tenór og Hanna Dóra Sturludóttir sópran, og Kammersveit Hallgrímskirkju. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×