Innlent

Tuttugu milljarðar í arð á ári

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Hörður Arnarson.
Hörður Arnarson. Fréttablaðið/Vilhelm
Landsvirkjun hefur síðustu fimm ár greitt niður skuldir sem nema 82 milljörðum króna og á sama tíma fjárfest fyrir 68 milljarða króna. Fjármunamyndun fyrirtækisins hefur því verið 150 milljarðar á þessum tíma.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins telja stjórnendur Landsvirkjunar nú horfur á því að eftir tvö til þrjú ár ætti árleg arðgreiðsla að geta numið 10-20 milljörðum króna, en síðustu ár hefur hún verið um 1,5 milljarðar á ári.

Þessi sviðsmynd miðast við óbreyttar rekstraráætlanir. Ekki er horft til neinna fjárfestinga varðandi mögulegar virkjanir eða sæstreng til Evrópu. Ríkið er eini eigandi Landsvirkjunar.

Gangi þessar áætlanir eftir munu, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, myndast skilyrði til þess að draga úr niðurgreiðslu skulda og auka í staðinn arðgreiðslurnar.

Rekstur Landsvirkjunar hefur farið stórbatnandi síðustu ár, en í nýútgefinni ársskýrslu fyrirtækisins kemur fram að hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam rúmum 19 milljörðum króna á síðasta ári. Eiginfjárhlutfall félagsins er komið í 40 prósent og hefur ekki verið hærra frá upphafsárum þess.

Ársfundur Landsvirkjunar verður haldinn í Hörpu í dag og þar mun Hörður Arnarson forstjóri kynna fjárhagsstöðu fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×