Stjórnvöld Ástralíu hafa staðfest að þeir hafi gert fyrstu loftárás sína gegn Íslamska ríkinu, innan landamæra Sýrlands. Ástralar hafa gert loftárásir gegn ISIS í Írak í um ár. Fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, sagði í síðustu viku að þeir myndu einnig gera árásir í Sýrlandi, en hann sagði einnig að Ástralía myndi taka við tólf þúsund flóttamönnum frá landinu.
Loftárásir síðustu daga eru tíundaðar í yfirlýsingu frá hernaðarmálayfirvöldum í Bandaríkjunum. Þar kemur fram að auk Ástralíu hafi Kanada, Danmörk, Frakkland, Holland og fleiri ríki tekið þátt í aðgerðunum.
Allt í allt voru gerðar 15 loftárásir í dag og í gær. Meðal þess sem Ástralar réðust á var brynvarinn bíll. Haft er eftir Kevin Andrews, varnarmálaráðherra Ástralíu, að flugmenn þeirra starfi eftir ströngum reglum sem eigi að koma í veg fyrir að borgarar falli í árásunum.
Ástralar gera loftárásir gegn ISIS í Sýrlandi
Samúel Karl Ólason skrifar
