Handbolti

Gaupi: Það klingja viðvörunarbjöllur | Myndband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón Guðmundsson.
Guðjón Guðmundsson. vísir/vilhelm
Íþróttafréttamaðurinn Guðjón Guðmundsson er ekki nógu ánægður með stöðuna á íslenska landsliðinu eftir leikina tvo gegn Þjóðverjum.

„Það er jákvætt að vinna seinni leikinn. Hins vegar finnst mér vera brotalamir á leik íslenska liðsins. Ég var ekki hrifinn af sóknarleiknum í hvorugum leiknum. Við skorum ekki mikið af teig eða úr hornum. Við fáum svo þrjú mörk af línunni í þessum tveim leikjum. Við sækjum mjög mikið inn á miðju vallarins. Því er einfalt að verjast er við mætum sterkari liðum," segir Guðjón og bætir við.

„Mér finnst boltinn oft ganga illa í sókninni. Þetta er ekki nógu gott og þarna hringja viðvörunarbjöllur fyrir HM."

Gaupi bendir réttilega á að auðvitað sakni liðið Arons Pálmarssonar.

„Hann styrkir liðið um 15-20 prósent sé hann heill heilsu. Hann er einn besti handboltamaður heims og við getum illa án hans verið. Hann gerir þetta samt ekki einn. Það er útilokað mál.

„Mér finnst íslenska liðið í raun ekki hafa leikið góðan leik síðan á EM í Danmörku fyrir ári síðan."

Íslenska liðið prófaði nýjan varnarleik í fyrri leiknum gegn Þjóðverjum með litlum árangri.

„Varnarleikurinn gegn Þjóðverjum var þokkalegur. Slakur í fyrri leiknum en skánaði mikið í seinni. Við lifum á að spila maður á mann. Það útheimtir mikla orku og menn þurfa að vera fljótir á löppunum.

„Við prófuðum afbrigði af 5/1 í fyrri leiknum en það gekk engan veginn upp. Við getum ekki spilað með fljótandi senter sem dregur sig til baka nema hann sé tveir metrar á hæð. Við eigum ekki þannig mann. Það fannst mér skrítið."

Guðjón er engu að síður bjartsýnn á gott gengi í Katar en spjallið við hann má sjá í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×