Handbolti

Aron með flestar stoðsendingar á HM til þessa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/Eva Björk
Aron Pálmarsson er efstur í stoðsendingum hjá mótshöldurum eftir tvær fyrstu umferðirnar á HM í handbolta í Katar og hann er jafnframt í 3. sæti yfir þá sem hafa átt þátt í flestum mörkum.

Aron gaf átta stoðsendingar í sigrinum á móti Alsír í gær og hefur þar með gefið tólf stoðsendingar í fyrstu tveimur leikjum íslenska liðsins.

Aron hefur eins stoðsendingarforskot á næsta mann sem er Makedóníumaðurinn Filip Mirkulovski. Í þriðja sætinu eru síðan Svíinn Kim Andersson, Alsíringurinn Messaoud Berkous og Raúl Entrerríos frá Spáni sem hafa allir gefið tíu stoðsendingar.

Aron hefur skorað 11 mörk sjálfur og hefur því komið með beinum hætti að 23 mörkum íslenska liðsins.

Aron er í þriðja sæti á þeim lista en efstir og jafnir eru Slóveninn Dragan Gajic og Makedóníumaðurinn Kiril Lazarov sem hafa báðir komið að 24 mörkum.

Slóveninn Dragan Gajic er markahæsti leikmaður keppninnar með 24 mörk, 12 mörk að meðaltali í leik, en hann hefur enn ekki gefið stoðsendingu á félaga sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×