Handbolti

Aron: Algjört grín að skora bara 16 mörk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Ég skil þetta ekki alveg. Við mættum tilbúnir í leikinn og vel undirbúnir, en sóknarleikurinn er algjör skandall,“ sagði Aron Pálmarsson, leikmaður Íslands, við Vísi eftir tapið gegn Svíum í fyrsta leik liðsins á HM í kvöld.

Matthias Andersson varði 21 skot í markinu og naut þess að spila fyrir aftan sterka vörn Svíanna, en sóknarleikur Íslands var ekki boðlegur að mati Arons.

„Hann leit rosalega vel út í markinu, en við spiluðum bara hræðilega í sókninni. Við komumst ekki í þau færi sem við lögðum upp með og það skildi að. Við skoruðum 16 mörk í leiknum sem er bara grín og lið á okkar kaliber á að gera miklu betur,“ sagði hann.

„Það er klárlega vörnin [þeirra] sem fær okkur í þessi erfiðu skot, en við vissum að þeir væru stórir og sterkir. Það gekk ekki að opna þá og þegar svona markvörður fær svona vörn fyrir framan sig þá verður þetta erfitt.“

Hvað var það sem gekk ekki upp af því sem Aron hafði lagt upp fyrir leik?

„Sóknarleikurinn - allt þar. Þeir eru þéttir þannig við ætluðum að draga þá í sundur og finna plássin en það gekk ekki. Þess vegna fórum við í erfið skot,“ sagði Aron sem leggur ekki árar í bát.

„Ég hef engar áhyggjur af þessu. Nú er skitan búin og það má svekkja sig á þessu í rútunni á leiðinni upp á hótel. Svo er bara fundur og búið og svo næsti leikur. Við ætlum að vera hér sem lengst og við getum ekki látið þetta eyðileggja framtíðina í þessu móti.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn:sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×