Viðskipti innlent

„Pönkuðust” í Hannesi vegna millifærslunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ragnhildur var forstjóri FL Group þar til í október 2005. Hún sagði að þrátt fyrir að henni hafi þótt umrædd millifærsla óeðlileg þá hafi hún viljað halda starfi sínu áfram og láta reyna á samstarfið við Hannes.
Ragnhildur var forstjóri FL Group þar til í október 2005. Hún sagði að þrátt fyrir að henni hafi þótt umrædd millifærsla óeðlileg þá hafi hún viljað halda starfi sínu áfram og láta reyna á samstarfið við Hannes. Vísir
Fjármálastjóra FL Group, Sveinbirni Indriðasyni, og forstjóra félagsins, Ragnhildi Geirsdóttur, gekk erfiðlega að fá upplýsingar frá Hannesi Smárasyni og Kaupþingi í Lúxemborg um millifærsluna frá FL Group til Fons sem framkvæmd var þann 25. apríl 2005.

Sveinbjörn sagði við skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að hann hafi viljað ganga úr skugga um að peningarnir á umræddum reikningi væru aðgengilegir félaginu. Sagði hann að hann og Ragnhildur hafi saman „pönkast í Hannesi út af þessu.”

Ragnhildur sagði að í samtölum sínum við Hannes hafi það komið skýrt fram að peningarnir væru til taks fyrir FL Group á reikningnum fyrir mögulegar fjárfestingar. Allar upplýsingar ættu hún og Sveinbjörn að fá hjá bankanum en svo svaraði bankinn aldrei, heldur bar fyrir sig bankaleynd. Hannes hafi aldrei sagt henni að peningarnir fóru til Fons.

Vissi ekki hvernig peningarnir komu til baka til FL Group

Ragnhildur kvaðst ekki muna hvenær henni var fyrst kunnugt um millifærsluna en henni var ljóst að þarna var millifærsla sem ekki var fullskýrð.

Í lok júní komu peningarnir svo til baka beint frá Fons með láni sem fjármagnað var af Kaupþingi í Lúxemborg og Hannes Smárason gekk persónulega í ábyrgð fyrir ásamt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, samkvæmt gögnum málsins.

Aðspurð hvort að Ragnhildi hafi verið kunnugt um að féð hafi komið til baka með þessum hætti, svaraði hún neitandi. Það hafi einfaldlega komið aftur inn á reikninginn eftir að hún „pressaði á þetta” bæði við Hannes og bankastjóra Kaupþings, Hreiðar Má Sigurðsson.

Ragnhildur var forstjóri FL Group þar til í október 2005. Hún sagði að þrátt fyrir að henni hafi þótt umrædd millifærsla óeðlileg þá hafi hún viljað halda starfi sínu áfram og láta reyna á samstarfið við Hannes.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×