Innlent

Gústaf ekki vonsvikinn: „Ég sóttist ekki eftir þessu, það var leitað til mín“

Birgir Olgeirsson skrifar
Gústaf Níelsson mun ekki taka sæti sem varamaður í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.
Gústaf Níelsson mun ekki taka sæti sem varamaður í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.
„Djöfulgangurinn er slíkur í kringum þetta að það sætir undrun,“ segir sagnfræðingurinn Gústaf Adolf Níelsson um ákvörðun Framsóknar og flugvallarvina að draga skipan hans til baka sem varafulltrúa í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar en ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokksins hafa farið hörðum orðum um þessa skipan. Þegar Vísir ræddi við Gústaf í morgun sagðist hann eiga von á að halda þessu sæti.

Sjá einnig:„Ég er bara að verða vinsælasti maðurinn í bænum“

„Ég geri alveg ráð fyrir því að borgarfulltrúar Framsóknarflokksins hafi fullt umboð,“ sagði Gústaf í morgun en í yfirlýsingu frá borgarstjórnarflokki Framsóknar og flugvallarvina kom fram að skipan Gústafs væri ekki í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins og því mistök af hálfu fulltrúa borgarstjórnarflokksins.

„Kjafta sig einhvern veginn út úr þessu“

„Það er nefnilega það. Þeir kjafta sig einhvern veginn út úr þessu, mér er alveg sama hvernig þeir gera það,“ segir Gústaf um þessa yfirlýsingu Framsóknar og flugvallarvina. Gústaf segist ekki hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar hann frétti af ákvörðuninni að draga skipan hans til baka.

„Leitað til mín“

„Nei, ég hef ekki orðið fyrir neinum vonbrigðum. Ég sóttist ekki eftir þessu, það var leitað til mín. Þannig að það eru engin vonbrigði.“

Hann segist velta fyrir sér hver viðbrögðin hefðu verið hefði Sverri Agnarssyni, formanni Félags múslima á Íslandi, eða Salman Tamimi, trúarleiðtoga múslima á Íslandi hefði verið boðið sætið.

„Ég var að velta því fyrir mér ef viðbrögðin hefðu verið með þessum hætti ef Sverri Agnarssyni eða Salman Tamimi hefði verið boðið sætið,“ segir Gústaf sem er flokksbundinn sjálfstæðismaður og hefur sætt harðri gagnrýni fyrir ummæli sín í garð múslíma en hann hefur lýst því yfir opinberlega að hann sé á móti mosku í Reykjavík.


Tengdar fréttir

Skipan Gústafs dregin til baka

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafa ákveðið að draga til baka skipan varafulltrúa síns í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×