Innlent

Útskriftarferð MR-inga óvenju dýr

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðrún Emilsdóttir er viðskiptastjóri Eskimo Travel.
Guðrún Emilsdóttir er viðskiptastjóri Eskimo Travel. Vísir
Guðrún Emilsdóttir, viðskiptastjóri hjá Eskimo Travel, segir að það sé nokkuð óvanalegt að framhaldsskólanemendur fari í útskriftarferðir sem kosti rúmlega 300.000 krónur, líkt og nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík stefndu á að fara í núna í sumar.

Búið var að kjósa um að fara til Mexíkó í tvær vikur en val nemenda stóð á milli þriggja pakka sem Eskimo Travel hafði sett saman fyrir 5. bekkjarráð sem skipuleggur útskriftarferðina. Innifalið í ferðinni, sem kostaði akkúrat 307.990 krónur, var flug fram og til baka, gisting í eina viku með morgunmat og gisting í eina viku með öllum mat og fararstjórn.

Útskriftarferðir á bilinu 180-250.000 krónur

„Nefndin í MR leitaði til okkar núna í vetur en við skipulögðum útskriftarferð skólans til Marokkó í fyrra. Þau báðu okkur um að gera nokkrar ferðir fyrir sig og við stungum upp á svona klassískum ferðum, til Spánar, Tyrklands, Marokkó, og svona á verðbilinu 180.000 til 250.000 krónur,“ segir Guðrún.

Hún segir að hugmyndin um Mexíkó hafi svo komið upp hjá nemendunum.

„Við tókum svona létt í árina með það og útskýrðum fyrir þeim að það yrði dýrt því þarna væri til dæmis um mjög langt flug að ræða. Það þarf fyrst að fljúga til Bandaríkjanna og þaðan niður til Mexíkó en þau vildu ólm fá að sjá pakkann og leyfa nemendum svo að velja. Við settum því saman þrjá pakka, Mexíkó, Marmaris á Tyrklandi og Marokkó, og svo var kosið.“

Algengt er að farið sé í alls kyns skoðunarferðir í útskriftarferðum framhaldsskólanema. Myndin er frá Cenote-helli í Mexíkó.Mynd/Eskimo Travel
Tilgangur ferðarinnar fyrir bí ef það komast ekki allir með

Mexíkó vann með miklum yfirburðum í kosningu nemenda, segir Guðrún. Það hafi hins vegar komið smá hik í hópinn varðandi ferðina þegar á leið vegna kostnaðarins.

„Sumir kusu í einhverjum flýti, aðrir höfðu ekki efni á þessu og sumir áttuðu sig á því að af því að þetta var svona dýrt þá kæmist besta vinkonan ekki með og eitthvað slíkt. Margir nemendur höfðu því samband við okkur og sögðu okkur frá því að það myndu ekki allir komast með. Þá er tilgangur ferðarinnar kannski svolítið fyrir bí því þetta er svona hugsað til þess að hrista hópinn saman.“

Ferðaskrifstofan ákvað í framhaldi af þessu að halda upplýsingafund fyrir foreldra um ferðina, í samstarfi við foreldrafélag MR og skólayfirvöld. Guðrún segir að þau hjá Eskimo Travel hafi gefið það út um leið og efasemdir vöknuðu hjá nemendum um ferðina til Mexíkó að það væri hægt að endurskoða ferðina og áfangastaðinn.

Ekki lengur bara djammferðir

„Við tökum samt náttúrulega ekki þá ákvörðun heldur nemendaráðið. Eftir þennan fund með foreldrum fundaði nemendaráðið svo með skólayfirvöldum og foreldrafélaginu og þá var ákveðið að kjósa um hvort það ætti að kjósa aftur um hvert yrði farið í útskriftarferðina. Það var síðan kosið um það í síðustu viku og á næstunni verður því kosið á ný um áfangastað,“ segir Guðrún.

Aðspurð segir hún að það ekki algengt að menntaskólanemendur fari í jafndýra ferð og Mexíkó-ferð MR-inga. Algengara sé að háskólanemendur fari í dýrari ferðir; þá sé gjarnan farið lengra, til Tælands, Kambódíu eða Kúbu, svo dæmi séu tekin, og þá er jafnvel farið í lengri tíma en tvær vikur.

„En svo hafa þessar útskriftarferðir bara breyst svo mikið frá því sem var. Þetta eru hættar að vera bara djammferðir heldur vilja krakkarnir fara í skoðunarferðir og svona ýmsar upplifanir þannig að við erum að bjóða mikið upp á það,“ segir Guðrún.


Tengdar fréttir

Ósáttir útskriftarnemar: Klósettin láku og maturinn var ógeðslegur

"Flest klósettin láku eða voru stífluð," segir móðir drengs sem fór í útskriftarferð með MR til Krítar á vegum Heimsferða. "Maturinn var líka ógeðslegur.“ Framkvæmdastjóri Heimsferða segist ekki vita betur en að ferðin hafi gengið vel. "Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri óánægju með matinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×