Innlent

Komið að ögurstundu í Úkraínu

Hrund Þórsdóttir skrifar
Petró Porósjenkó, forseti Úkraínu, segir komið að ögurstundu í sögu þjóðarinnar.
Petró Porósjenkó, forseti Úkraínu, segir komið að ögurstundu í sögu þjóðarinnar.
Francois Hollande Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fóru til Úkraínu í dag til að kynna nýja friðaráætlun sem vonast er til að bindi enda á átökin í austurhluta landsins. NATO ríkin ætla í umfangsmestu eflingu sameiginlegs herafla frá lokum kalda stríðsins vegna ástandsins þar.

Hollande og Merkel héldu til Kíev í dag til að leggja fram friðartillögur sínar og sagði Hollande á blaðamannafundi að þær byggðu á landamærahelgi Úkraínu. Til stóð að ræða þær við Petró Porósjenkó, forseta Úkraínu, í dag og við Vladimír Pútín Rússlandsforseta, á morgun. „Við munum reyna til þrautar að ná friðsamlegri lausn, en tíminn er að renna út,“ sagði Hollande.

Bardagar hafa farið harðnandi í Úkraínu og hundruð óbreyttra borgara látið lífið síðustu vikur. Hart er barist í Debaltseve og hafa þúsundir flúið svæðið undir dynjandi sprengjuregni, eins og sjá og heyra má í meðfylgjandi myndskeiði. Margir eru í felum án aðgangs að vatni og rafmagni og ætla bandarísk stjórnvöld að verja 16 milljónum dollara eða 2,2 milljörðum króna í neyðaraðstoð.

Þá var John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Úkraínu í dag til að ræða mögulega vopnaaðstoð við Porósjenkó. „Mér er ánægja að bjóða þig velkominn til Kænugarðs á þessari ögurstundu í sögu þjóðar okkar,“ sagði Porósjenkó við Kerry.

Á sama tíma funduðu varnarmálaráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Meðal þeirra gætir andstöðu við hugmyndir um vopnasendingar til Úkraínu en bandalagið ætlar að efla herafla sinn í Austur-Evrópu vegna átakanna þar. Um er að ræða umfangsmestu eflingu sameiginlegs liðsafla þess frá lokum kalda stríðsins.

„Ofbeldisverkum í Úkraínu fjölgar með hverjum deginum og ástandið verður æ alvarlegra,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins. „Rússar virða alþjóðareglur ítrekað að vettugi og halda áfram að styðja aðskilnaðarsinna með hátæknivopnum, þjálfun og útvegun liðsafla.“

Á sjötta þúsund hefur látið lífið og yfir milljón hefur þurft að yfirgefa heimili sín í Úkraínu, frá því að átök brutust þar út í fyrra.


Tengdar fréttir

Skotið á sjúkrahús í Donetsk

Saksóknari í Úkraínu segir að fjórir til tíu manns hafi látist í árás á sjúkrahús í borginni Donetsk í austurhluta Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×