Íslenski boltinn

Skúli Jón samdi við KR til þriggja ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
KR-ingar fagna því að fá Skúla Jón heim.
KR-ingar fagna því að fá Skúla Jón heim. vísir/vilhelm
Knattspyrnumaðurinn Skúli Jón Friðgeirsson er genginn í raðir síns uppeldisfélags KR á nýjan leik, en hann skrifaði undir þriggja ára samning við vesturbæjarfélagið í dag.

Þetta hefur verið í pípunum í nokkrar vikur, en Skúli Jón er búinn að æfa með KR síðustu vikur og þá sagðist hann líklega vera á heimleið í viðtali við Fréttablaðið á dögunum.

Skúli Jón hefur hefur aðeins spilað með KR hér heima á ferlinum, en hann kom fyrst við sögu hjá liðinu í efstu deild árið 2005. Hann hefur í heildina spilað 125 leiki í deild og bikar fyrir KR-liðið og skorað í þeim fjögur mörk.

Þessi öflugi varnarmaður yfirgaf KR sem Íslands- og bikarmeistari 2011 og samdi við Elfsborg. Hann varð Svíþjóðarmeistari á fyrsta ári en kom ekki við sögu í mörgum leikjum.

Hann var lánaður til Gefle á síðasta tímabili þar sem hann fékk heldur ekki mikið að spila, en síðustu þrjú ár hjá honum í atvinnumennskunni hafa verið erfið.

Heimkoma hans er þó mikill liðsstyrkur fyrir KR-liðið, en hann var einn albesti varnarmaður Pepsi-deildarinnar þegar hann fór.

Hann var þá hluti af hinu firnasterka U21 árs landsliði Íslands sem fór á EM 2011 í Danmörku, en Skúli Jón á einnig að baki fjóra landsleiki fyrir Ísland. Þann síðasta spilaði hann árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×