Innlent

Atvinnuleysi bitnað einna verst á háskólamenntuðu fólki

Stefán Árni Pálsson skrifar
Skráð atvinnuleysi í janúarmánuði hefur þó ekki mælst lægra síðan í janúar 2008.
Skráð atvinnuleysi í janúarmánuði hefur þó ekki mælst lægra síðan í janúar 2008. Vísir / GVA
Skráð atvinnuleysi mældist 3,6% af mannafla í janúar og hafði aukist lítillega frá því í desember en þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Skráð atvinnuleysi í janúarmánuði hefur þó ekki mælst lægra síðan í janúar 2008. Tólf mánaða hlaupandi meðaltal atvinnuleysis var 3,6% í desember og hefur verið stöðugt á leið niður á við síðustu misseri.

Í Hagsjánni kemur fram að sé litið á samsetningu hóps atvinnulausra megi sjá að háskólamenntað fólk hafi orðið frekar illa úti. Það á einkum við um atvinnulausar konur á höfuðborgarsvæðinu, en þær voru um 30% atvinnulausra þar á árinu 2014.

Frá árinu 2010 hefur atvinnulausum konum á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 43% en atvinnulausum konum með háskólamenntun einungis um 24%.

Því má segja að atvinnuleysi síðustu ára hafi bitnað einna verst á háskólamenntuðu fólki, sérstaklega háskólamenntuðum konum á höfuðborgarsvæðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×