Íslenski boltinn

Arna Sif samdi við þriðja besta lið Svíþjóðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Sif Ásgrímsdóttir í leik á móti Val.
Arna Sif Ásgrímsdóttir í leik á móti Val. Vísir/Daníel
Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þór/KA, mun spila með einu besta liði Svíþjóðar í sumar en hún hefur samið við Kopparbergs/Göteborg FC. Þetta er staðfest á heimasíðu félagsins.

Arna Sif er 22 ára miðvörður sem hefur líka spilað inn á miðjunni. Hún hefur verið í stóru hlutverki með Þór/KA undanfarin sumur og var fyrirliði liðsins sem varð Íslandsmeistari 2012.

Arna Sif Ásgrímsdóttir æfði með Kopparbergs/Göteborg FC í viku og skoraði eitt marka liðsins í sigri á Kungsbacka í æfingaleik en markið kom með skalla eftir hornspyrnu.

Arna Sif gerir svokallaðan 1+1 samning það er eins árs samning með möguleika á því að framlengja hann um eitt ár.

Kopparbergs/Göteborg FC endaði í þriðja sæti í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta ári og varð bikarmeistari bæði 2011 og 2012.

Þetta er mikill missir fyrir Þór/KA enda Arna Sif Ásgrímsdóttir leikjahæsti leikmaður félagsins í úrvalsdeild kvenna þrátt fyrir ungan aldur.

Þetta er annar leikmaðurinn sem Þór/KA missir því sóknarmaðurinn Katrín Ásbjörnsdóttir er á leiðinni til norska úrvalsdeildarliðsins Klepp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×