
Tekur dæmi af Snorra og Ásmundi
Tekur hann sem dæmi málaferli Akureyrarbæjar gegn Snorra Óskarssyni, kennara sem kenndur er við Betel. „Skoðun Akureyrarbæjar er að kennarinn hafi viðhaft meiðandi ummæli, eða að mínu mati guðlast, hins vegar ekki gegn Guði himinsins , heldur svokölluðum guði tíðarandans,“ segir hann.

Í umsögninni segir hann að málefnaleg rök um íslam eða samkynhneigð séu yfirleitt flokkuð sem rasismi eða hatursumræða.
Lögleiða hatursorðræðu
Helgi Guðnason sendi inn umsögn fyrir hönd Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu þar sem hann mótmælir breytingunni. „Með því að afnema núgildandi lög um guðlast er verið að lögleiða hatursorðræðu. Lögin banna ekki frjálsa tjáningu skoðana, þau banna ekki gagnrýni á trúarbrögð, þau banna skrumskælingu, háð og fordómahvetjandi tjáningu,“ skrifar hann í umsögn kirkjunnar. Kirkjan leggur til að nafni laganna verði breytt eða að lögin verði felld inn í lög gegn hatursorðræðu.

Hefðu ekki átt að birta teikningarnar
Ólafur Eggertsson, formaður Berunessóknar, segir í umsögn sóknarinnar einfaldlega: „Er alfarið á móti efni frumvarpsins.“ Í greinargerð með umsögninni segir hann að mannlegt samfélag muni alltaf þurfa einhvern lagaramma sem veitir aðhald og leiðbeinir um samskipti, framkomu og margs konar grundvallarreglur, við það höfum við, sem og aðrar siðmenntaðar þjóðir búið, svo í samskiptum sem öðru.
Í greinargerð frumvarpsins er meðal annars minnst á árásir hryðjuverkamanna á ritstjórnarskrifstofu satírublaðsins Charlie Hebdo í París. Ólafur virðist ekki sammála því að árásin séu rök fyrir breytingum á guðlastsákvæðinu. „Jótlandspósturinn og Charle Hebdo hefðu átt að hugsa sig tvisvar um áður en móðgandi umfjöllun þeirra um Múhameðstrú var birt,“ skrifar hann.

Þjóðkirkjan styður þó breytingarnar. Í umsögn sem Agnes M. Sigurðardóttir biskup sendi inn kemur fram að á kirkjuþingi í janúar 2015 hafi verið ályktað um stuðning við breytingarnar. „Biskup Íslands telur að lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútíma viðhorf til mannréttinda og að tjáningarfrelsið sé einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðis og frelsis,“ segir hún.
Ríkissaksóknari hefur einnig skilað inn umsögn þar sem lýst er yfir stuðningi við breytingarnar sem og Vantrú og Siðmennt, skráð lífskoðunarfélags.