Innlent

Holtavörðuheiðin enn lokuð

Fólk hafðist meðal annars við í Staðarskála.
Fólk hafðist meðal annars við í Staðarskála. Vísir/Gyða Lóa
Björgunaraðgerðir um það bil fjörutíu björgunarsveitarmanna við að hjálpa fólki úr föstum eða biluðum bílum á Holtavörðuheiði, sem hófust þar eftir að veður versnaði skyndilega síðdegis, stóðu  fram yfir miðnætti og höfðu þá sumir hafst við í föstum bílum sínum í allt að fjórar klukkustundir.

Snjókófið hafði í sumum tilvikum komist í rafkerfi bíla þannig að það drapst á þeim og var fólki sumstaðar orðið býsna kalt, en engum mun þó hafa orðið meint af.

Ekki var viðlit að hefjast handa við mokstur í gærkvöldi, bæði vegna illviðris og tugir bíla voru skildir eftir á heiðinni þannig að ekki var hægt að hefja mokstur, en veður hefur nú gengið niður og eru vegagerðarmenn komnir á heiðina, en óljóst hvenær hún verður fær.

Nokkur hundruð manns gistu í hjálparmiðstöðvum, sem Rauði krossinn opnaði í Reykjaskóla við Hrútafjörð og á Laugarbakka í Miðfirði, auk þess sem einhverjir höfðust við í Staðarskála.

Þónokkrir vegfarendudr á suðurleið óku Laxárdalsleiðina upp úr Hrútafirði, þaðan niður í Dali og um Heydal í Borgarfjörðinn, þaðan sem greiðfært var til höfuðborgarinnar. Truflanir urðu á millilandaflugi vegna óveðurs og erfiðra brautarskilyrða og var einni vél lent á Reykjavíkurflugvelli og annarri á Akureyri auk þess sem tafir urðu á lendingu nokkurra annarra millilandavéla.    




Fleiri fréttir

Sjá meira


×