Innlent

Fötluðum konum hættast við að verða fórnarlömb ofbeldis

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
María Þorleif Hreiðarsdóttir segist hafa verið beðin um að þegja yfir reynslu sinni.
María Þorleif Hreiðarsdóttir segist hafa verið beðin um að þegja yfir reynslu sinni.
Fatlaðar konur eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en nokkur annar samfélagshópur samkvæmt tölum frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur. Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Þroskahjálpar segist óttast að minnkandi kröfur um fagmennsku í þjónustu við fatlaða kunni að auka á vandann.

María Þorleif Hreiðarsdóttir segir að fyrst nú sé farið að taka þessi mál alvarlega. Hún varð fyrir kynferðisofbeldi af hendi manns þegar hún starfaði á vernduðum vinnustað í Kópavogi fyrir rúmum 20 árum. Málið var aldrei kært til lögreglu. Hún lýsti þessari reynslu sinni í samtali við Stöð 2. Hún segir að sér hafi verið uppálagt að treysta manninum sem var um sextugt og starfaði sem leiðbeinandi á staðnum. Hún hafi orðið afar hrædd og hraðað sér heim án þess að stimpla sig út. Maðurinn hafi síðar gengið á hana og beðið hana um að þegja yfir reynslu sinni.

Bryndís Snæbjörnsdóttir segir lítinn skilning á ofbeldi gegn fötluðum konum innan réttarkerfisins.  Málum hafi verið vísað frá dómi þar sem þroskaskertar konur þyki ekki nógu trúverðugar, þar sem þær eigi erfitt með að henda reiður á tímasetningum. Það sé hinsvegar ekki metið, að þær eigi erfiðara með að spinna upp sögur. Hún segir að Þroskahjálp sé í samstarfi við innanríkisráðuneytið og dómstóla og hún eygi von um að ástandið fari að batna og miðað verði við að fullgilda 13 grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Hún segir mikilvægt að aðgreina ekki fatlaða frá öðrum heldur tryggja eðlilega blöndun fatlaðra og ófatlaðra. Þá þurfi að fræða starfsfólk og fatlaða um áhrif kynferðisofbeldis og efla vald fatlaðra og ábyrgð á eigin lífi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×