Viðskipti innlent

Segir fjölgun ferðamanna hvorki straumhvörf né vatnaskil

ingvar haraldsson skrifar
Halldór Benjamín segir að fólki á Íslandi fjölgi ekki um nema 25 þúsund þegar ferðamenn eru flestir hér á landi.
Halldór Benjamín segir að fólki á Íslandi fjölgi ekki um nema 25 þúsund þegar ferðamenn eru flestir hér á landi. vísir/gva
Fjölgun ferðamanna hér á landi er hvorki þau straumhvörf eða vatnaskil sem stundum má ætla af opinberi umræðu. Þetta kom fram í máli Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Icelandair Group, á morgunfundi Landsbankans um áhrif lækkunar olíuverðs í Hörpu í dag.

Halldór taldi misvísandi að tala sífellt um fjölda ferðamanna sem koma til landsins á ári hverju. Ferðmenn voru um milljón á síðasta en þeim gæti fjölgað um á þriðja tug prósenta á þessu ári.

Halldór benti á að yfir þá þrjá mánuði sem ferðamenn eru flestir hér á landi séu að jafnaði ekki nema 45 þúsund ferðamenn á landinu. Á sama tímabili séu um 20 þúsund Íslendingar erlendis á hverjum tíma í sumarfríi. Því aukist mannfjöldinn á Íslandi ekki um nema 25 þúsund manns þegar ferðamenn eru flestir yfir hásumarið eða sem jafngildi 7 prósent mannfjöldans.

Hina níu mánuði ársins séu ferðamenn um 14 þúsund að jafnað og því vel innan þeirra marka sem innviði landsins þoli. Þrátt fyrir það telur Halldór engu síður að þörf sé á uppbyggingu innviða hér á landi til að mæta fjölgun ferðamanna. Hins vegar eigi að horfa á fjölda ferðamanna á landinu en ekki heildarfjölda þeirra.



Ferðaþjónustan skapað megnið af hagvexti

Halldór sagði einnig að vöxtur ferðaþjónustunnar skýrði stærstan hluta hagvaxtar síðustu ára. Uppsafnaður hagvöxtur allra atvinnugreina frá 2011 hefði verið 9 prósent en sé ferðaþjónustan undaskilin hafði hann verið um 2,5 til 3 prósent.

Nú sé framleiðsluslakinn í hagkerfinu að hverfa að og takmörk á hve mikið ferðaþjónustan geti vaxið innanlands. Því þurfi Íslendingar að horfa til þess að fá meira út úr hverjum ferðamanni í stað þess að horfa bara í fjölgun ferðamanna sagði Halldór.


Tengdar fréttir

Spá 1,6 milljónum gesta á Þingvöllum eftir tíu ár

Ferðamálastofa reiknar með að á bilinu 970 þúsund til 1,6 milljónir manna heimsæki Þingvöll á árinu 2025. Þingvallanefnd hugar að stækkun þjónustuhúss á Hakinu og uppbyggingu veitingaaðstöðu. Engin áform eru um að reisa nýtt hótel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×