Lífið

Fékk fjóra birni í heimsókn í garðinn

Bjarki Ármannsson skrifar
Birnirnir grannskoða snjókarlinn í garði fjölskyldunnar.
Birnirnir grannskoða snjókarlinn í garði fjölskyldunnar. Myndir/Einar Freyr Sverrisson
„Þetta var gaman en samt alveg ógnvænlegt,“ segir Einar Freyr Sverrisson, Íslendingur búsettur í Bandaríkjunum um óvænta heimsókn fjögurra bjarndýra í garð sinn í gærkvöldi.

„Við vorum að klára kvöldmatinn og þá varð okkur litið út í garð,“ segir Einar. „Við sáum einn björn koma inn í garðinn og svo fylgdu þrír á eftir sem voru klárlega húnar. Þeir voru samt eiginlega orðnir jafnstórir og sá sem var líklega mamman.“

Fjölskylda Einars býr í bænum Hanover í New Hampshire-ríki, þar sem hann starfar sem þvagfæraskurðlæknir við Dartmouth-háskóla. Einar segir mikið skóglendi allt í kringum bæinn en þetta var þó í fyrsta sinn sem fjölskyldan sá birni.

„Við erum mjög ánægð, því það er mjög sjaldgæft að fólk sjái þetta,“ segir hann. „En maður heyrir alltaf af einhverjum sem hefur séð birni hérna.“

Líkt og sést á myndbandinu hér fyrir neðan sýndu birnirnir meðal annars snjókörlunum í garði fjölskyldunnar mikinn áhuga. Einar segir þá hafa verið í garðinum í um tíu mínútur áður en þeir hurfu aftur inn í skóg. Fjölskyldan var spennt að sjá dýrin en ekki laust við að þeim hafi einnig verið nokkuð brugðið.

„Konan mín var í hálfgerðu sjokki eftir á,“ segir Einar. „Sérstaklega þegar við komumst að því að svaladyrnar höfðu verið ólæstar. Það uppgötvaðist ekki fyrr en eftir á. Það hefði alveg eins getað farið verr.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×