Innlent

Mannslátið í Hafnarfirði: Beðið eftir niðurstöðum úr DNA-rannsókn

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Konan er sögð hafa beitt hnífi við verknaðinn.
Konan er sögð hafa beitt hnífi við verknaðinn. vísir/stefán

Rannsókn lögreglu á mannslátinu í Hafnarfirði miðar vel að sögn Kristjáns Inga Kristjánssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns. Konan, sem grunuð er, mun sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi. Hún sætir jafnframt geðrannsókn og er niðurstaðna að vænta á næstu dögum.

Þá er beðið eftir niðurstöðum DNA-rannsóknar á hníf sem konan er talin hafa beitt við árásina ásamt endanlegri krufningsskýrslu. Kristján Ingi segist ekki geta svarað til um hvort konan hafi játað á sig verknaðinn.

Konan er grunuð um að hafa orðið sambýlismanni sínum að bana á heimili þeirra við Skúlaskeið í Hafnarfirði hinn 14. febrúar síðastliðinn. Hún er á sextugsaldri og er nú vistuð í fangelsinu Kópavogi. Maðurinn var með eitt stungusár vinstra megin á brjóstholi og var úrskurðaður látinn af vettvangi. Hann var pólskur ríkisborgari, fæddur árið 1974.

Konan gæti átt yfir höfði sér allt að sextán ára fangelsi verði hún ákærð og fundin sek fyrir manndráp af ásetningi.


Tengdar fréttir

Hefur hvorki játað né neitað

Konan sem grunuð er um að hafa orðið sambýlismanni sínum að bana hefur hvorki játað né neitað aðild að málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×